Vilja leggja af Fiskeldissjóð

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar og Bolungavíkurkaupstaðar eru bæði hlynnt hugmyndum, sem fram koma í skjali Matvælaráðuneytisins , stefnumótun í lagareldi til ársins 2040, að leggja af Fiskeldissjóð og úthluta fjármagni beint til sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni um skjalið að þessi tillaga sé ánægjuleg og bæjarráð Bolungavíkur vill leggja sjóðinn niður sem samkeppnissjóð og hætta úthlutun á grundvelli umsókna.

Um þriðjungur af fiskeldisgjaldi sem sjókvíaeldisfyrirtæki greiða rennur í sjóðinn og sjóðsstjórn úthlutar því til sveitarfélaga samkvæmt umsóknum. Tveir þriðju gjaldsins rennur beint í ríkissjóð. Gjaldið mun skila á þessu ári um hálfan annan milljarð króna og það mun hækka næstu 3 árin og gæti orðið um 3 milljarðar króna árlega þaðan í frá.

Bæjarráð Bolungavíkur vill stórauka það hlutfall fiskeldissjóðs sem rennur til fiskeldissveitarfélaganna og að úthlutun fjárins endurspegli fjárfestingarþörf vegna innviða tengdu fiskeldinu. Ísafjarðarbær tekur undir það og vill að horft sé til þeirra framkvæmda sem sveitarfélög þurfa að fara í til að standa undir uppbyggingu fiskeldis.

Ísafjarðarbær vill að störf tengd rannsóknum, eftirliti og menntun verði efld og byggð upp í nærumhverfi atvinnugreinarinnar. Ísafjarðarbær gerir athugasemd við þá leið sem kynnt er í stefnumótunardrögunum að úthluta úr sjóðnum eftir hlutfalli við fjölda starfsmanna í fiskeldi í viðkomandi sjókvíaeldisbyggð miðað við starfsmannafjöldann í landshlutanum og segir þá tillögu ekki hafa komið fram áður og segir að hún krefjist frekari skoðunar og rökstuðnings. Þess í stað er stungið upp á því að úthluta eftir íbúafjölda og eldissvæðum í ákveðnum hlutföllum.

DEILA