Vesturbyggð: samþykkir brunavarnaáætlun

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur í umboði bæjarstjórnar samþykkt brunavarnaráætlun fyrir sveitarfélagið og verður hún send Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Áætlunin gildir einnig fyrir Tálknafjörð og er fyrir árin 2023-2028.

Brunavarnaáætlun leggur grunninn að gæðastjórnun og úttekt á starfsemi slökkviliðs fyrir þá aðila sem bera ábyrgð á brunavörnum í hverju sveitarfélagi. Áætlunin auðveldar einnig íbúum sveitarfélaganna að fá upplýsingar um veitta þjónustu, skipulag slökkviliðs og markmið með rekstri þess í sveitarfélögunum.

Markmið áætlunarinnar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Í áhættugreiningu sem fylgir með áætluninni segir að til þess að ráða við mesta áhættustigið þurfi 4 dælubíla, lausar dælur, með samtals dælugetu upp á 10.000 til 15.000 lítra á minútu, 18 til 25 slökkviliðsmenn þar af þeim 10-15 reykkafarar og annan búnað sem er tilgreindur í lágmárksbúnaðarþörf slökkviliða frá HMS.

Það sem vantar upp á búnað er sett inn í framkvæmdaáætlun sem fylgir brunavarnaáætluninni.

Slökkviliðin í Vesturbyggð og Tálknafirði eru algjörlega aðskilin fjárhagslega og heyra undir sitt hvort sveitarfélagið. Það er sami slökkviliðsstjórinn í báðum sveitarfélögunum sem dags daglega vinnur undir stjórn Vesturbyggðar og vinna hans er seld út til Tálknafjarðar. Aðstoðarslökkviliðsstjóri, varðstjórar og aðrir stjórnendur stjórna í verkefnum slökkviliðanna þvert á slökkvilið og án greiðslu þar á milli.
Litið er á slökkviliðin sem eina heild þegar kemur að skipulagi varðandi mannskap, tæki og verkefni þó svo fjarhagur sé aðskilinn. Þannig eru búnaður, tæki og mannskapur færður á milli eftir verkefnum hverju sinni. Almennt er talað um Slökkvilið Patreksfjarðar, Slökkvilið Tálknafjarðar og Slökkvilið Bíldudals og sameiginlega eru þau nefnd slökkviliðin í þessari áætlun.

Samtals eru um 40 manns í slökkviliðunum þremur.

Húsnæði slökkviliðsins á Patreksfirði er of lítið miðað við þann búnað sem þar er nú fyrir og gert er að eiga samkvæmt
þessari áætlun. Aðskilja þarf búningaaðstöðu frá bílageymslu með því að svissa einum bíl og búningaaðstöðunni. Lagfæra þarf gólf í slökkvistöðinni. Viljayfirlýsing var undirrituð 2022 af Vesturbyggð, Björgunarsvetinni Blakk og
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna sjúkrabíla. Þar var stefnt að byggingu Björgunarmiðstöðvar á Patreksfirði þar sem slökkvilið, björgunarsveit og sjúkrabílar verða staðsettir. Því miður gekk þessi viljayfirlýsing ekki eftir.

Verið er að útbúa nýtt húsnæði fyrir slökkvilið Bíldudals. Búið er að reisa húsið og áætlað að flytja inn árið 2023 og klára það að innan 2024.

Slökkvistöðin á Tálknafirði er í húsnæði sveitarfélagsins. Húsið er stálgrindarhús byggt árið 1976 og hefur
slökkviliðið um 143 m2 í þremur bilum af átta, áhaldahús og félagsmiðstöð nýta hin bilin. Húsið er í góðu ástandi en aðstaða slökkviliðs er of lítil fyrir núverandi búnað og tæki. Ætlunin er að slökkvilið og áhaldahús skipti um svæði.

DEILA