Morgunblaðið gerir í gær að umfjöllunarefni reyk frá skemmtiferðaskipum á Ísafirði á sunnudaginn. Haft er eftir Malin Brand blaðamanni, sem sögð er búa á Suðureyri og tók myndina að þetta sé ógeðslegt. Haft er eftir íbúa á Ísafirði að um hafi verið að ræða blámóðu og olíureyk. Ekkert kemur fram í fréttinni um það hvort um mengun hafi verið að ræða, og ef svo er þá hvernig mengun né hversu mikil hún hafi verið.
Umhverfisstofnun er með loftgæðamæli á Ísafirði í Hafraholti og má sjá mæld gildi á vef stofnunarinnar. Mælt svifryk á sunnudaginn var allan sólarhringinn mjög lágt og töldust loftgæðin mjög góð. Varðandi PM10 eru heilsuverndarmörkun við 50 einingar á sólarhringsmeðaltali. Þennan sólarhring var hæsta gildið 5,6 og það lægsta 0. Meðaltalið er ekki gefið upp en er augljóslega innan við 1/10 hluta af heilsuverndarmörkum. Svipað er varðandi mælingar á fínna svifryki PM2,5 , það var langt undir mörkum.
Samkvæmt þessi mæli verður ekki séð að um neina mengun hafi verið að ræða sem talandi er um.

Stefnt að þremur mælum í Sundahöfn
Hilmar Lyngmó hafnarstjóri Ísafjarðarhafna segir að stefnt sé að því að setja upp þrjá mæla í höfninni á Ísafirði og að þeir verði komnir upp fyrir næsta vor. En enginn mælir er í Sundahöfn og því engar mælingar eða athuganir sem liggja fyrir um gufuna og reykinn á sunnudaginn.
Mikil umræða var í síðasta mánuði um mengun frá hollenska skemmtiferðaskipinu Zuiderdam í Akureyrarhöfn en skoðun Umhverfisstofnunar leiddi í ljós að útblástur mengunarefna hafi verið innan leyfilegra marka. Kristínu Kröyer, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði í samtali við RUV að athugunin hafi leitt í ljós að útblásturinn frá skipinu hafi verið langt innan leyfilegra marka. „Það sem var að koma upp úr strompunum er, eins og skipið hefur sagt sjálft, að öllum líkindum vatnsgufa,“