Umhverfisráðherra: alvarleg staða á Vestfjörðum – tillögum starfshópsins hrint í framkvæmd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps. mynd af vef Stjórnarráðs

Guðlaugur Þór þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn minnisblað um Vestfjarðaskýrsluna sem kynnt var í síðustu viku á fundi í Birkimel á Barðaströnd. Starfshópur um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum var skipaður þeim Einari K. Guðfinnssyni, sem var formaður hópsins, Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og Jóni Árnasyni, forseta bæjarstjórnar í Vesturbyggð. Starfshópurinn lagði til einar 15 tillögur um raforkumál á Vestfjörðum, jarðhitaleit, aukinni orkuöflun, þjóðgarði á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og græna atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Umhverfisráðherra sagði þá að hann myndi ekki sitja lengi yfir tillögunum og hygðist kynna þær sem fyrst í ríkisstjórn.

Guðlaugur þór sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri einkum tvennt sem ýtti fast á eftir aðgerðum. Annað væri að það væri alvarleg staða á Vestfjörðum í orkumálum og hitt væri að Alþingi hefði árið 2018 samþykkt þingsályktun sem setti aðgerðir á Vestfjörðum í forgang þegar kemur að orkuöryggi. Til þessa hefði hægt miðað í að fylgja eftir þeirri ályktun og tími til kominn að bæta úr.

Ein helsta tillagan í skýrslu starfshópsins er að ráðherra verði við erindi frá Orkubúi Vestfjarða og aflétti að hluta til friðunarskilmálum í Vatnsfirði svo unnt verði að undirbúa umhverfismat á 20 – 30 MW virkjun. Ráðherra sagðist myndu svara erindinu á næstu dögum. Orkubúi Vestfjarða verður sent bréf og beðið um mat á áhrifum þess að breyta skilmálunum. Að því fengnu verður erindið sent til umsagnar umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi sveitarfélags og að þeim mun ráðherra taka málið til afgreiðslu.

Guðlaugur Þór nefndi sérstaklega að vinna þyrfti gegn mikilli olíunotkun vegna framleiðslu varaafls en Orkubúið brenndi 2,1 milljón lítrum í fyrra.

Önnur tillaga starfshópsins er að ákvarða sem fyrst staðsetningu tengipunkts í Ísafjarðardjúpi vegna Hvalárvirkjunar og Austurgilsvirkjunar. Ráðherra mun eiga fund með Landsnet innan skamms um staðsetningu tengipunktsins.

Varðandi Austurgilsvirkjun mun ráðherra einnig eiga fund með Landsneti um tengigjald sem virkjunin þarf að greiða vegna tengingar við raforkukerfið, en virkjunaraðilar telja gjaldið of hátt miðað við væntanlegar tekjur. Þá hvatti starfshópurinn til þess að leyst yrði úr álitamálum varðandi eignarhald á svæði virkjunarinnar sem til koma af kröfum Óbyggðanefndar. Umverfisráðherra hefur lagt til að forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið taki afstöðu til hvort ríkið sé tilbúið að ganga inn í samning landeiganda og Vesturverks þegar niðurstaða óbyggðanefndar liggur fyrir.

Loks má nefna að Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun halda áfram með undirbúning að stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum í samræmi við tillögur starfshópsins þ.m.t. varðandi Vatnsdalsvirkjun og mun senda sveitarfélögunum uppfærða tillögu á næstu vikum og auk þess verði hafinn undirbúingur að stækkun svæðisins í samráði við landeigendur og sveitarfélög.

uppfært kl 16:52.

DEILA