Þokubogi

Fallegur þokubogi náðist á mynd að morgni dags þann 18. febrúar 2021 yfir Kaldaðarnesvegi í Sandvíkurhreppi. (Ljósmynd: Guðmundur Karl Sigurdórsson)

Þokubogi, eða hvítur regnbogi, líkist hefðbundnum regnboga að því leyti að hann sést við ljósbrot sólgeislunar í dropum í lofti, en í mun minni dropum.

Hefðbundinn regnbogi sést þegar regn fellur en að baki áhorfanda skín sólin.

Líkt og fyrir regnboga þarf sólin að skína í bak áhorfandans svo þokubogi myndist en í stað þess að ljósbrotið sé í regndropum, og litir regnbogans birtist áhorfanda, verður ljósbrotið í skýjadropum.

Þoka er ekkert annað en ský við yfirborð og er samsett úr örsmáum vatnsdropum, skýjadropum sem eru 10–1000 sinnum minni er regndropar. Meðalradíus slíkra dropa er um 0,1 mm, en getur verið allt frá 0,01 til 0,1 mm. Skýjadropar eru svo léttir að þeir svífa en þegar droparnir eru nógu þungir til að falla kallast þeir regndropar, og minnstu regndroparnir súldardropar.

Af síðu Veðurstofunnar

DEILA