Sveitarfélögin: 33% fjölgun starfsmanna á 12 árum

Mikil fjölgun starfsmanna hefur orðið hjá sveitarfélögum landsins.

Heildarfjölda stöðugilda hjá 10 fjölmennustu sveitarfélögum landsins fjölgaði úr 14.112 í 18.789 frá 2010 til 2022 eða á 12 ára tímabili. Fjölgunin er 33%.

Þetta kemur fram á Alþingi í svari innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni, alþm. um þróun fjölda starfsmanna hjá sveitarfélögum.

Um er að ræða stöðugildi í samstæðu viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. A- og B-hluta. Til A-hluta telst sú starfsemi sem fjármögnuð er að mestu leyti með skatttekjum. Í B-hluta er að finna starfsemi sem að litlu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, svo sem hafnir, veitur, félagslegt leiguhúsnæði og hjúkrunarheimili.

Fram kemur í svarinu að árið 2011 tóku sveitarfélögin yfir rekstur málaflokks fatlaðs fólks. Fyrir liggja tölur um þróun stöðugilda í þessum málaflokki frá 2018 til 2021. Samkvæmt þeim fjölgaði stöðugildum úr 1.941 í 2.587, eða um réttan þriðjung. Þessi málaflokkur skýrir samkvæmt svarinu aðeins 14% af fjölguninni eða 646 stöðugildi af 4.677 stöðugilda fjölgun. Hafa ber þó í huga að ekki eru gefnar upp tölur frá 2011 fyrir málefni fatlaðra heldur frá 2018.

Í takt við fjölgun starfsmanna hefur hlutfall launa og launatengdra gjalda af tekjum A hluta hækkað á umræddu tímabili. Það var 51,8% að meðaltali hjá sveitarfélögunum 10 árið 2010 en var komið upp í 58% árið 2022.

Hæst var hlutfallið 2022 hjá sveitarfélaginu Árborg 65,1% en það hafði verið 54,7% árið 2010. Í Fjarðabyggð var hlutfallið í fyrra 63,5% og Reykjavíkurborg var í þriðja sæti með 60,4%. Lægst var hlutfallið í Garðabæ 47,3%. Þar hefur það lítið breyst á þessum 12 árum, var 43,6% árið 2010.

DEILA