Framleiðslugjald sem sjókvíaeldisfyrirtæki greiða í ríkissjóð hefur sextánfaldast á aðeins þremur árum og verður á þessu ári liðlega einn milljarður króna. Gjaldið var fyrst innheimt árið 2020 og greiddu fyrirtækin þá 60 m.kr. Greitt er fyrir hvert kg af slátruðum eldislaxi. Fyrsta árið var gjaldið 1,87 kr/kg en er á þessu ári 18,33 kr/kg. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af framleiðslugjaldinu muni liðlega tvöfaldast á næstu 4 árum og verða árið 2027 samtals 2.174 milljónir króna. Gjaldið var lögfest árið 2019 og nemur það 3,5% af markaðsverði eldislaxsins á erlendum markaði.
Þetta kemur fram á Alþingi í svari matvælaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni , alþm.
Auk framleiðslugjaldsins er greitt í umhverfissjóð sjókvíaeldis fjárhæð sem er 20 SDR af hverju tonni lífmassa sem leyfi er fyrir. Jafngildir það um 3.700 kr á hvert tonn leyfis. Byrjað var að innheimta gjaldið árið 2014 og var þá þá 51 m.kr. en nam það á síðasta ári 336 m.kr. og verður 405 m.kr. frá og með 2024.
Samtals voru þessi tvö gjöld 777 m.kr. á síðasta ári, eru áætluð verða 1.371 m.kr. á þessu ári og verða 2.579 m.kr. á árinu 2027 samkvæmt því sem fram kemur í svari ráðherrans.