Í gær voru opnuð tilboð í rekstur Breiðafjarðarferju 2023-2026 – Þar er um að ræða sérleyfi á leiðinni Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur, þ.e. að annast fólks- og vöruflutninga til og frá Stykkishólmi til Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey.
Aðeins eitt tilboð barst frá Sæferðum núverandi rekstraraðila ferjusiglinga. að upphæð 1,987,155,000 kr. en kostnaðaráætlun Vegagerðar var 1,244,941,551 kr.
Vegna óvissu um hvort að tilboðinu verði tekið hefur öllum 22 starfsmönnum Sæferða í Stykkishólmi verið sagt upp störfum þar sem óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur.
Í tilkynningu frá Sæferðum kemur fram að gert sé ráð fyrir að í hönd fari samningaviðræður við Vegagerðina um rekstur á Breiðafjarðarferju fyrir árin 2023-2026.