Sæfari Ísafirði: mikilvægt æskulýðsstarf

Torfi Einarsson við störf. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á Ísafirði er rekinn siglingakúbburinn Sæfari , sem er félag áhugafólks um sjóíþróttir á Ísafirði. Félagið var stofnað árið 1978 og starfaði þá um árabil og var svo endurreist um aldamótin og hefur starfað af miklum þrótti síðan. Um er að ræða sigingafólk, kajakræðara og vélbátasiglara. Félagið stendur fyrir stendur fyrir námskeiðum, einkum fyrir börn og unglinga. Í sumar verða 7 námskeið með 15 – 17 þátttakendum í hverju. Samtals verða því um 100 börn og unglingar á siglinganámskeiðum í Sæfara í sumar.

Torfi Einarsson er vakinn og sofinn yfir Sæfara og hann var að störfum í aðstöðu Sæfara í Suðurtanga þegar Bæjarins besta kynnti sér starfsemina á dögunum. Hann sagði að auk námskeiðanna sjö væri námskeið fyrir eldra fólk á kjölbát 19 feta skútu.

Þá væri á Suðureyri kona sem kenndi börnum á skútu og kajak í lóninu þar.

Torfi sagði að börnin byrjuðu gjarnan á leikjum og svo væri byrjað á því að kenna þeim á kajak, þá standard pallborð og uppblásin bretti þar sem þau æfa sig í að stökkva í sjóinn.

Aðstaða félagsins er við Suðurtanga. Í gömlu húsnæði hefur verið innréttuð aðstaða til geymslu á búnaði og klefar til þess að baðast og klæðast. Leitað hefur verið til fyrirtækja um stuðning með góðum árangri og má segja að aðstaðan sé kostuð af þeim. Torfi leggur áherslu á að námskeiðsgjöldum er stillt í hóf og standa þau undir kostnaði við leiðbeinendur en fyrirtæki hafa fjármagnað annað svo sem viðhald og breytingar á húsnæði og gerð á grjótgarði við Suðurtanga. Í hann fór 500 rúmmetrar af stórgrýti sem raðað var haglega upp svo góð aðstaða skapaðist í vík neðan við Suðurtangahúsin.

Torfi og Jón Ólafur Sigurðsson hafa lagt ómældar vinnustundir í viðhald og aðra vinnu fyrir Sæfara og húsnæðið.

áhyggjur af húsnæðinu

Greina má áhyggjur í tali Torfa um húsnæði félagsins. Ísafjarðarbær er eigandi og hefur líst áhuga á að selja það. Það yrði reiðarslag fyrir starfsemi Sæfara segir Torfi. Hann segir að aðstaðan sé hálfgerður almenningur sem margir nýta sér. Fleiri nota þess aðstöðu svo sem sjósundfólk á Ísafirði. Húsnæðið hefur verið aðlagaða að sjósportstarfseminni. Í því séu að auki fjórar íbúðir og eigi að nýta það til t.d. atvinnustarfsemi þurfi að ráðast í kostnaðarsamar endurbætur upp á tugi milljóna króna.

Hann nefnir að í Hafnarfirði og Reykjavík útvegi bæjarfélagið húsnæði og starfsmenn fyrir þessa starfsemi þar og greiði um 80% af kostnaði en viðkomandi félög leggi til um 20% með vinnu félagsmanna. Ljóst er að miðað við þetta er Ísafjarðarbær að fá aðstöðu og starfsemi Sæfara fyrir lítinn tilkostnað.

Staðsetning aðstöðu Sæfara er mjög heppileg að sögn Torfa inn í pollinum og að nokkru leyti í skjóli. Ekki er gott að finna annan góðan stað. Til tals kom að færa Sæfara til Bolungavíkur en það gengur ekki þar sem umferðin í höfninni er of mikil.

Mikið var um að vera þennan morgun á Suðurtanga við Sæfara, börn og undlingar á siglinganámskeiði og erlendir ferðmenn leigðu sér kajaka af Borea Adventures og reru út á pollinn og Torfi fylgdist með öllu innan húss sem utan.

Erlendir ferðamenn skoða aðstöðu Sæfara.
Grjótgarðurinn sem fyrirtæki á Ísafirði stóðu að.
Á námskeiði í kajakróðri.
Víkin fyrir neðan húsin á Suðurtanga.
DEILA