Hraðfrystihúsið Gunnvör: of margir karlar í stjórn

Aðeins fjórir stjórnarmenn undirrita skýrslu stjórnar Hraðfrystihússins Gunnvör hf í síðasta ársreikningi félagsins en fimm eiga sæti í stjórn samkvæmt samþykktum félagsins.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri félagsins segir skýringu vera þá að gerð hafi verið athugasemd við að of margir karlar væru í stjórninni þegar talið væri saman fimm manna stjórn og tveir varamenn. Þrír karlar hefðu verið kosnir í aðalstjórn og tveir karlar í varastjórn. Lögum samkvæmt verður hvort kyn að ná a.m.k. 40% hlutfalli og var því hlutur kvenna undir þeim mörkum.

Málið var leyst með því að einn karlinn í aðalstjórn vék úr stjórninni og því hafa aðeins fjórir stjórnarmenn verið að undanförnu. Einar Valur sagði bætt verða úr þessu á næstu vikum og haldinn verður hluthafafundur til að kjósa fullmannaða stjórn. Hann sagði engan ágreining í hluthafahópnum um málið.

Ekki kom fram hver það var sem vék en á síðasta ári eignaðist F84 ehf liðlega 20% hlut í félaginu og fulltrúi þess á eftir að taka sæti í stjórn.

DEILA