FALL ER FARARHEILL

Ný stafræn markaðsstofa, Hnappurinn, hefur tekið til starfa á Vestfjörðum, nánar tiltekið á Flateyri þar sem Juraj Hubinak hefur hreiðrað um sig ásamt fjölskyldu sinni. Hann leggur áherslu á góða þjónustu við landsbyggðina enda skilur hann manna best hvaða áskoranir frumkvöðlar og fyrirtæki á landsbyggðinni standa frammi fyrir. „Hafandi starfað hjá stórum markaðsstofum í Evrópu og við markaðssetningu stórra vörumerkja á borð við Tesco og Johnnie Walker voru það sannarlega viðbrigði að hefja störf sem einyrki á Flateyri,“ segir Juraj og hlær. 

Hann er upprunalega frá Slóvakíu en bjó og starfaði lengi í Prag í Tékklandi. Sagan af því hvernig hann endaði á Flateyri er hins vegar nánast eins og söguþráður í bíómynd. „Sambýlismaður minn, Eyjólfur, og ég kunnum mjög vel við okkur í Prag og höfðum hug á að eignast eigið húsnæði. En fasteignaverð var á uppleið þar eins og annarsstaðar í evrópskum stórborgum og eftir því sem við biðum og söfnuðum lengur fyrir útborgun, hækkaði fasteignaverð umfram það svo við fórum að skoða fasteignir á Íslandi.“ Juraj hafði búið á Íslandi áður, þar sem hann kynntist Eyjólfi, en þá einungis í Reykjavík. 

„Eyjólfur lá yfir fasteignaauglýsingum og datt niður á þetta stóra, tignarlega einbýlishús á mjög viðráðanlegu verði, sem þarfnaðist að vísu dálítillar lagfæringar. Hann sýndi mér auglýsinguna og mér leist bara mjög vel á, en hvorugur okkar hafði komið til Flateyrar fyrr og ég vissi ekkert um Vestfirði. En ég skoðaði landakort og sá að það væri stutt í næsta flugvöll svo ég sagði bara „jájá“ og við keyptum húsið óséð!“ 

Í fyrstu stóð til að þeir byggju áfram í Prag þar sem Juraj var í góðu starfi, og myndu nota húsið á Flateyri sem sumardvalarhús en eftir að Eyjólfur fór í könnunarleiðangur til Flateyrar kom í ljós að húsið þarfnaðist mun meiri vinnu en þeir höfðu gert sér grein fyrir af myndum og því nauðsynlegt að vera meira á staðnum á meðan sú vinna færi fram. 

Þeir hófu því að undirbúa flutning til Íslands í ársbyrjun 2020 og varð um og ó þegar þeir fengu fregnir af snjóflóðunum sem féllu á Flateyri í janúar það ár. Sem betur fer varð ekki mannskaði og húsið þeirra hafði sloppið svo þeir héldu sig við ferðaáætlunina, óku til Kaupmannahafnar til að senda hundinn sinn, Skugga, til Íslands í einangrun og fóru svo aftur til Prag og pökkuðu öllu sínu í stóra kerru sem Eyjólfur ók með um borð í Norrænu. Á meðan varði Juraj nokkrum dögum með fjölskyldu sinni í Slóvakíu áður en hann tók flug til Íslands. Þessir þrír fjölskyldumeðlimir komu því til Íslands hver á sinn máta, um miðjan vetur, í upphafi heimsfaraldurs þegar óðum var verið að fella niður flug og loka landamærum svo þeir rétt sluppu til landsins. 

Þegar Eyjólfur kom í land í Seyðisfirði var slíkt aftakaveður að hann varð að skilja kerruna eftir þar en komst klakklaust til Reykjavíkur, náði í Juraj og svo börðust þeir áfram vestur á Flateyri í vetrarfærð. Juraj var því frekar þreyttur og taugatrekktur þegar hann barði nýja húsið sitt loks eigin augum, en þá kom í ljós að dæla hafði bilað og sjór flætt inn í kjallara hússins. 

Fyrstu dagarnir á nýjum stað voru því nokkuð yfirþyrmandi og ekki bætti úr skák að stuttu síðar greindist Juraj með Covid-!9, án einkenna. „Ég, nýi gaurinn, var fyrstur til að greinast á Flateyri og það var fljótt að spyrjast út,“ segir Juraj og rifjar upp að lögreglubíll hafi komið heim að húsinu þar sem lögreglumenn hafi viljað tryggja að þeir Eyjólfur sætu í sóttkví. „Þetta var rétt í byrjun faraldsins á Íslandi, lítið vitað um veikindin og öll mjög hrædd, skiljanlega, ég var ekki síst hræddur um að hafa smitað aðra en sem betur fer höfðum við verið svo uppgefnir eftir ferðalagið að við höfðum haldið okkur heima til að safna kröftum. En þetta voru aldeilis ekki frábær fyrstu kynni í litlu þorpi,“ bætir hann við og hlær. 

Fall er fararheill, eins og þar stendur, og Juraj og Eyjólfur voru fljótir að komast inn í samfélagið á Flateyri. Juraj fékk fljótlega vinnu hjá Lýðskólanum og Eyjólfur er umsjónarmaður Vagnsins sem er aðalskemmtistaðurinn á Flateyri. Inn á milli hafa þeir haldið áfram að gera upp húsið sem er orðið hið glæsilegasta að utan og efri hæðin nánast tilbúin. 

Reynsla og þekking Juraj af markaðssetningu og stórum herferðum spurðist fljótt út í þorpinu og fór hann að taka að sér verkefni fyrir lítil fyrirtæki og frumkvöðla sem hafa ýmsar hugmyndir um uppbyggingu í Önundarfirði og víðar á Vestfjörðum. Hann ákvað því að taka stökkið og stofna eigið fyrirtæki, Hnappinn, til að bjóða slíkum aðilum víðtæka þjónustu, allt frá því að vinna markaðsrannsóknir á byrjunarstigi, upp í að hanna markaðsáætlanir og stýra markaðsherferðum. „Það er að svo mörgu að hyggja, sérstaklega þegar þú ert að komast af stað með hugmynd og þarft bara að vita hvort einhver glóra sé í henni. Eins gengur oft mikið á við stofnun fyrirtækis og ákvarðanir um markaðssetningu teknar í fljótfærni svo framsetning vörumerkisins verður ekki nógu vönduð. Þegar á líður er svo hvorki tími né peningur til að leiðrétta það sem gæti í raun verið að skemma fyrir viðskiptunum, án þess að eigendurnir átti sig á því. Markaðssetningin situr því oft á hakanum, sem er þó bráðnauðsynleg til að knýja reksturinn áfram,“ útskýrir Juraj. Hann bendir á að góð stafræn markaðssetning skipti sköpum nú til dags en það geti verið nokkur frumskógur að finna út hvar og hvenær best sé að ná til neytenda, sem reiði sig mun meira á upplýsingar af samfélagsmiðlum og úr snjallforritum en vitneskju úr hefðbundnum auglýsingum á prenti eða í ljósvakamiðlum. 

„Úti á landi eru til dæmis margir smærri ferðaþjónustuaðilar líka í öðru starfi eða með annan rekstur og hafa einfaldlega ekki tíma til að rýna í gögn og undirbúa markaðssetningu af þeim toga sem þörf er á til að ná til viðskiptavina strax í upphafi. Þar getum við í Hnappinum komið inn eftir þörfum, og þá skiptir engu hvar á landinu við erum staðsett svo lengi sem við höfum tölvu og internet. Þess vegna ákváðum við að höfða sérstaklega til frumkvöðla og fyrirtækja á landsbyggðinni, þótt við neitum auðvitað engum fyrirspurnum af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Juraj sposkur að lokum.

www.hnappurinn.is

Hnappurinn á Facebook: www.facebook.com/hnappurinn

Hnappurinn á Instagram:  @hnappurinn

DEILA