Bíldudalur: vöfflur bakaðar í aldargömlu konungsjárni

Vöfflukaffið á mánudaginn. Mynd: Védís Thoroddsen.

Nýlega fannst í gömlu smiðjunni á Bíldudal forláta vöfflujárn sem ber skjaldamerki Friðriks Danakonungs. Jóhann Gunnarsson var fenginn til þess að lagfæra járnið sem var að hans sögn haugryðgað og illa farið. Var það eldbarið og sandblásið og lagfært eftir föngum. Fór svo að á mánudaginn var nokkrum konum á Bíldudal boðið í vöfflur sem borðaðar voru í blíðviðrinu þann daginn. Jóhann segir að vöfflujárnið sé hitað í kolum og sett deig í. Hitinn dugði fyrir einni vöfflu og þá var járnið aftur sett í kolin til frekari hitunar.

Vöfflubaksturinn gekk að vonum og konurnar gæddu sér á góðmetinu.

Jóhann Gunnarsson telur líklegt að vöfflujárnið hafi verið í gömlu smiðjunni lengi. Hún var byggð 1895 í tíð Péturs Thorsteinssonar og getgátur eru uppi um að vöfflujárnið tengist konungskomu Friðriks 8. til Íslands 1907. Má því ætla að vöfflujárnið sé aldargamalt eða svo.

Vöfflujárnið.
Jóhann með vöfflujárnið.
Gamla smiðjan á Bíldudal.

DEILA