Austurland: þrír létust í flugslysi

Flugvél af gerðinni Cessna fannst í kvöld um sjöleytið brotlent við Sauðahnúka á Austurlandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á vettvangi en flugmaður og farþegar Cessna vélarinnar voru látnir þegar að var komið, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Í framhaldinu færðist forræði aðgerðarinnar frá Landhelgisgæslunni til Lögreglunnar á Austurlandi, sem stýrir nú aðgerðum á vettvangi og fer með rannsókn málsins ásamt Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Þyrla frá Landhelgisgæslunni er lögreglu og starfsmönnum Rannsóknarnefndar samgönguslysa til aðstoðar við störf á vettvangi.

Klukkan 1701 í dag bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð úr neyðarsendi lítillar flugvélar af gerðinni Cessna. Þegar var haft samband við flugstjórnarmiðstöðina sem staðfesti að vélin hefði verið á flugi yfir Austurlandi og að um borð væru auk flugmanns tveir farþegar. Landhelgisgæslan, kallaði þá út þyrlu ásamt björgunarsveitum á Austurlandi, auk lögreglu.

Áætlunarflugvél frá Icelandair sem var á leið til Egilsstaða svipaðist um eftir Cessna vélinni auk þess sem ferðaþjónustuþyrla og fisflugvél frá Egilsstöðum tóku þátt í leitinni ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

DEILA