Við Djúpið – tónlistarhátíð á Ísafirði 17.-21. júní

Frá hátíðinni í fyrra.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið verður haldin á Ísafirði dagana 17.-21. júní næstkomandi. Haldnir verða alls 10 tónleikar , tveir hvern dag sem hátíðin stendur. Á hverju kvöldi er blásið til hátíðartónleika í Hömrum, sal Tónlistarféalgs Ísafjarðar en auk þess eru hádegistónleikar í Edinborgarhúsinu og meira að segja pikknikktónleikar í Blómagarðinum á Austurvelli.

Þá verða haldin sumarnámskeið. Aðalnámskeið hátíðarinnar 2023 er kammertónlistarnámskeið fyrir strengjaleikara, blásara og píanista í litlum hópum sem munu spila með leiðbeinendum hátíðarinnar sem koma frá kammerhópnum Decoda í Bandaríkjunum. Einnig verður hægt að fá einkatíma og taka þátt í masterclass hjá kennurum hátíðarinnar.

Skráning á námskeiðin fer þannig fram að send er fyrirspurn á greipur@viddjupid.is. Námskeiðsgjöldum er stillt í hóf og hægt að sækja um heimagistingu.

Kennarar á námskeiðinu verða David Kaplan, píanó, Cathrine Gregory, flauta og Sæunn Þorsteinsdóttir, selló.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið var fyrst haldin á Ísafirði og nágrenni um sumarsólstöður árið 2003. Frá upphafi hefur námskeiðahald verið meginstef hátíðarinnar. Strax í upphafi skapaðist svo hefð fyrir því að aðalkennarar hátíðarinnar léku á tónleikum í dagskrá hennar enda hefur hátíðinni ævinlega lánast að fá góða tónlistarmenn til þess að stýra námskeiðunum. Þar að auki koma ýmsir aðrir listamenn fram í hátíðardagskránni sem og nemendur námskeiðanna sem allir koma fram á tónleikum. Með þennan grunn að leiðarljósi var síðar byggt ofaná dagskrá tónlistarhátíðarinnar.

Stjórnandi hátíðarinnar er Greipur Gíslason.

Verkefnastjórar: Bjarney Ingibjörg Gunnlaugssóttir Pétur Ernir Svavarsson (í leyfi).

Listrænn ráðgjafi: Sæunn Þorsteinsdóttir.

Miðasala á hátíðina fer fram á tónleikastað og með rafrænum hætti á netinu. Hægt er að kaupa staka miða eða hátíðarpassa sem gildir á alla tónleika.

Aðgangur er ókeypis á hádegistónleika í Edinborg og nemendatónleika.

Almennt miðaverð: 3.000 kr.

Ungt fólk og námsmenn: 2.000 kr.

Hátíðarpassi: 7.500 kr.

Miðasala á netinu

Hátíðin hefst laugardaginn 17. júní með pikknikk tónleikum á Austurvelli sem hefjast kl 18. Upphafstónleikar verða svo kl 20 sama dag í Hömrum – flauta og píanó.

DEILA