Vesturbyggð: bréf HMS um slökkvilið ekki lagt fram í 3 mánuði

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bréf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. mars sl. um úrbætur á slökkviliði Vesturbyggðar var ekki lagt fram í bæjarráð fyrr en 13. júní.

Í bréfinu var vísað til erindis frá september 2022 þar sem spurst var fyrir um stöðu slökkviliðsins og vinnslu brunavarnaáætlunar. Í því erindi kom fram að niðurstöður stofnunarinnar á úttektum á starfsemi slökkviliðsins ársins 2021 væri sú að sveitarstjórnin uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi slökkviliðsins eins og henni ber skylda til samkvæmt lögum nr. 75/2000 um brunavarnir. Enn fremur hafi sveitarfélaginu verið sendar leiðbeiningar um
nauðsynlegar úrbætur sem ráðast þyrfti í svo starfsemi slökkviliðsins væri í samræmi við lögbundnar kröfur.

HMS óskar eftir nánari upplýsingum um hver fyrirhuguð áform sveitarfélagsins eru varðandi þau atriði sem þarfnast úrbóta á starfsemi slökkviliðsins. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort hafin sé vinna við gerð brunavarnaáætlunar og ef svo er hvenær sveitarfélagið hyggst senda stofnuninni áætlunina til umsagnar og/eða samþykktar.

Í niðurlagi bréfsins minnir HMS á að stofnuninni beri að undangenginni viðvörun til sveitarstjórnar að tilkynna
innviðaráðuneytinu ef stofnunin telur að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni samkvæmt lögum um brunavarnir eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Telji ráðherra að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni getur ráðuneytið gripið til nauðsynlegra aðgerða á kostnað viðkomandi sveitarfélags.

Í bókun bæjarráðs er ekki upplýst hvaða atriði um er að ræða né hvernig brugðist verði við en þar segir aðeins að bæjarstjóra er falið að svara erindinu.

DEILA