Vestfjarðamótið í sjómanni 2023

Vestfjarðamótið í sjómanni verður haldið föstudaginn 2. júní næstkomandi kl. 20:30 á Verbúðinni í Bolungarvík.

Í tilkynningu frá Verbúðinni kemur fram að keppt verði með útsláttarfyrirkomulagi á sérsmíðuðu, löggiltu keppnisborði og er aldurstakmark 20 ár.

Á staðnum verða starfsmenn heilbrigðiskerfisins, sérþjálfaður handalögmálatæknir, fulltrúi sýslumanns og prestur, ef illa skyldi fara.

Til að koma til móts við kröfur samtímans fá allir þátttakendur áfallahjálp og hughreystingu að hætti hússins, í fljótandi formi, um leið og þeir detta úr keppni.

Sigurvegarinn hlýtur að launum guðaveigar frá Verbúðinni í lítravís og nætursaltaða þorskhnakka frá Jakobi Valgeir. Þá mun nafn sigurvegarans verða grafið í millidýran málm á vegg Verbúðarinnar, hvar það mun standa um aldir alda, viðkomandi til heilla.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á Facebooksíðu Verbúðarinnar og eru öll kyn hvött til að taka þátt.

DEILA