Verkalýsðmálaráð Samfylkingar gagnrýnir stýrivaxtahækkun Seðlabankans

Stjórn Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands gagnrýnir harðlega þá vaxta stefnu Seðlabankans sem bitnar á þeim sem minnst mega sín. Vaxtahækkanirnar duga ekki sem stjórntæki einar og sér meira þarf að koma til eigi að koma böndum á verðbóguna. Stjórnin fordæmir aðgerða- og skeytingarleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í baráttunni við verðbólguna.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lætur ógert að hækka skatta á þá sem bolmagn hafa til að greiða hærri skatta samtímis og lág- og millitekjufólk ber mestu birgðarnar.

 Verkalýðsmálaráðið skorar á ríkisstjórnina að setja aftur á bankaskatt og koma strax á leiguþaki á íbúðarhúsnæði.

Einnig skorar verkalýðsmálaráð á stjórnvöld að hafa forgöngu um að ráðast strax í byggingu íbúða fyrir lágtekjufólk eða ganga til liðs við samtök leigjenda um uppkaup íbúða fyrir tekjulága.

Stjórn verklýðsmálaráðs Samfylkingarinnar gagnrýnir harðlega að ríkisstjórnin skuli ekkert hafa gert til að stórbæta kjör almennings í landinu. Stjórnin gagnrýnir að skatta- og bótakerfið sé ekki notað sem  alvöru tekjujöfnurtæki fyrir tekjulágar fjölskyldur.

Stjórn Verkalýðsmálaráðs krefst þess að launahækkanir kjörinna fulltrùa og æðstu stjórnenda samfélagsins verði í takti við það launaþak sem félagsfólk innan ASÍ samdi um á liðnum vetri. Kjörnum fulltrúum á Alþingi ber skylda til að ganga í takt við launafólk í landinu. Stjórn Verkalýðsmálaráðs skorar á alþingismenn að grípa strax í taumana því þeirra er valdið og ábyrgðin.

Það er með öllu ólíðandi að stjórnvöld og æðstu ráðamenn taki sér launahækkanir sem eru í engum takti við almennt launafólk og það í skjóli landslaga. En gera ekkert til að breyta þeirri lagasetningu, en þau hafa vald til þess.

Formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar er Gylfi Þór Gíslason, Ísafirði.

DEILA