Það er gott að eldast: Sveitarfélög sækja um tilraunverkefni með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að sækja um þátttöku í tilraunaverkefninu „það er gott að eldast“ ásamt þeim sveitarfélögunum sem spanna þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Tilraunaverkefnið er aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk á árunum 2023–2027. Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar að um sé að ræða samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta með aðkomu
Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara. „Með því er lögð áhersla á þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu til að tryggja betri þjónustu til handa eldri borgurum. Grundvallaratriði fyrir samlegðaráhrifum er að ná utan um fagþekkinguna á hvoru sviði með því að samþætta m.a. þjónustu, forvarnir, heilsueflingu og aukna virkni.“

Aðgerðaráætlunin spannar alla þjónustu við eldri borgara og lýsir metnaði og vilja til þess að fólk fái þjónustu við hæfi á öllum stigum og geti þannig dvalið á heimili sínu lengur en nú er mögulegt.

Það er ljóst að nauðsynlegt er að fara nánar ofan í saumana á þeirri þjónustu sem félags- og heilbrigðiskerfinu er ætlað að sinna, sérstaklega í dreifðari byggðum segir í minnisblaðinu. Félagsmálastjórar sveitarfélaganna hafi mikla trú á að með samþættingu ætti að skapast möguleiki á nýta betur fagþekkingu, fjármagn og starfskrafta og vonast því eftir góðum viðbrögðum. Auk fjármagns er ætlun viðkomandi ráðuneyta að ráða þrjá sérfræðinga sem munu verða tilraunasveitarfélögunum til ráðgjafar á meðan á verkefninu stendur.

Fram kemur að bæjarstjórarnir í Vesturbyggð, Bolungavík og Ísafjarðarbæ hafi lýst áhuga á þátttöku í verkefninu auk forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

DEILA