Strandabyggð: felldur úr gildi reikningur vegna grenndarkynningar

Bitrufjörður.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Strandabyggðar frá 31. desember 2022 um álagningu gjalds að upp­hæð 22.214 krónur vegna grenndarkynningar skógræktaráforma í landi Grafar í Krossárdal í Bitrufirði.

Í janúar sl. kærði Hlöðuteigur sf. til úrskurðarnefndrinnar ákvörðun Strandabyggðar frá 31. desember 2022 um álagningu gjalds vegna grenndarkynningar skógræktaráforma kæranda í landi Grafar í Krossárdal. 

Tildrög málsins eru þau að í október 2020 sendi kærandi bréf til sveitarstjórnar Strandabyggðar vegna áforma hans um skógrækt í landi Grafar í Krossárdal á 108 ha svæði. Óskaði hann þess að sveitarstjórn tæki afstöðu til þess hvort hefja mætti framkvæmdir. Skipulags­fulltrúi sveitarfélagsins óskaði eftir umsögnum frá Minjastofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni auk þess sem hann sendi bréf 4. mars 2021 til landeigenda aðliggjandi jarða um kynningu á skógræktar­áformum kæranda.

Í október 2021 bókaði umhverfis- og skipulagsnefnd að hún teldi áformin ekki háð framkvæmdaleyfi þar sem skógræktar­svæðið væri innan við 200 ha og því í samræmi við skilmála Aðalskipulags Stranda­byggðar 2010–2022. Mæltist nefndin til þess við sveitarstjórn að samþykkja erindið með fyrir­vara um breytta afmörkun svæðisins. Á fundi sveitarstjórnar 12. október 2021 var niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkt.

Í nóvember 2022, lagði Strandabyggð á kæranda afgreiðslugjald og gjald vegna grenndarkynningar, samtals að upphæð kr. 35.776. Afgreiðslugjaldið var síðar fellt niður þar sem það hafði þegar verið greitt og tilkynnt að eingöngu yrði innheimt fyrir minni háttar grenndarkynningu.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá Strandabyggðar vegna grenndarkynningar skv. lið 4.8 er fyrir grenndarkynningu vegna skipulagsvinnu . Sú grenndarkynning sem fór fram í málinu „er þó ekki vegna skipulagsvinnu, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur er um að ræða grenndarkynningu leyfisskyldrar framkvæmdar á ódeiliskipulögðu svæði, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Átti álagningin því ekki viðhlítandi stoð í nefndri gjaldskrá sveitarfélagsins.“ 

DEILA