Samgönguáætlun: langt í næstu jarðgöng á Vestfjörðum

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra kynnir samgönguáætlunina.

Ekki verður byrjað á næstu jarðgöngum á Vestfjörðum fyrr en eftir um það bil 10 ár gangi eftir tillaga að jarðgangaáætlun í samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 sem Innviðaráðherra kynnti í gær. Tillagan verður næstu vikurnar til kynningar og umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Síðan verður samgönguáætlunin lögð fram á Alþingi næsta haust eftir að farið hefur verið yfir umsagnir og hugsanlega gerðar breytingar á kynntri áætlun.

Fjármögnun jarðgangaáætlunar liggur ekki fyrir en fram kemur að gert er ráð fyrir að hún verði með gjaldtöku af umferðinni. Í greinargerð segir að „fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð, eins og áður hefur komið fram. Stefnt hefur verið að hóflegri gjaldtöku
vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Meðal þeirra kosta sem einnig koma til greina er að stofna sérstakt innviðafélag sem haldi utan um flýtiframkvæmdir og jarðgöng. Slíku félagi yrði lagt til eigið fé, til að mynda í formi samgönguinnviða, en til greina kæmi að það hefði vel skilgreindar heimildir til lántöku.“

Forgangsröðun jarðganga

Lögð er til eftirfarandi forgangsröðun jarðganga:

  1. Fjarðarheiðargöng
  2. Siglufjarðarskarðsgöng
  3. Hvalfjarðargöng 2
  4. Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
  5. Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
  6. Breiðadalsleggur, breikkun
  7. Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng
  8. Miklidalur og Hálfdán
  9. Klettsháls
  10. Öxnadalsheiði

Af þessum kostum eru fjórir fyrstu teknir framfyrir í áætluninni. Byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum 2025 og á öðrum göngum skv. jarðgangaáætlun 2027. Fjarðarheiðargöng eru 13,3 km og áætluð kosta 46,5 milljarða króna. Næst í röðinni verða Siglufjarðarskarðsgöng, sem eru 5,2 km löng og áætlaður kostnaður 13,8 milljarðar króna miðað við verðlag í fyrra. Hvalfjarðargöng 2 eru 7,5 km og kosta 23,2 milljarða króna. Fjórðu göngin eru Ólafsfjörður – Dalvík 9,0 k, löng og kosta 22,4 milljarða króna.

Verðvístala Vegagerðarinnar hefur hækkað um 17% frá mars 2022 til mars 2023 og að teknu tilliti þess kosta jarðgöngin í fyrstu kostunum fjórum 116 milljarða króna. Miðað við fjárveitingar fram til 2033 eru 123 milljarðar króna til framkvæmda. Verður að teljast ólíklegt að nokkuð verði byrjað á fimmta jarðgangakostinum, göngum milli Ísafjarðar og Álftafjarðar fyrr en 2034 eða síðar en þó er það möguleiki.

Til þess að hnykkja á forgangsröðuninni eru í samgönguáætluninni settir á árunum 2024-2026 720 m.kr. til undirbúnings Siglufjarðarskarðsgöngum, Hvalfjarðargöngum 2 og göngum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Aðrir jarðgangakostir á Vestfjörðum eru breikkun Breiðadalsleggs Vestfjarðaganga, Miklidalur, Hálfdán og Klettháls. Fyrstnefndi kosturinn gæti verið á dagskrá eftir 12 – 15 ár en hinir verða mun seinna þar sem á undan verða Seyðsfjarðar- og Mjóafjarðargöng sem kosta um 50 milljarða króna.

Í greinargerð með tillögunni segir að miðað sé við að ljúka jarðgangaframkvæmdunum við valkostina 10 auk fjögurra annarra, sem eru til skoðunar, á næstu 30 árum. Þeir eru

Reynisfjall
Lónsheiði
Hellisheiði eystri
Berufjarðargöng og Breiðdalsheiðargöng

Samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar frá júní 2022 kosta Álftafjarðargöngin 17,5 milljarða króna, göng um Mikladal 7 milljarða króna, Hálfdán 15,6 milljarða króna og Klettháls 10,4 milljarða króna. Þessar tölur þyrfti líklega að hækka um 17% vegna verðhækkunar.

Leitað var viðbragða Vestfjarðastofu við jarðgangatillögunni og seinkun framkvæmda við Dynjandisheiði og í Gufudalssveit en þar voru forsvarsmenn ekki tilbúnir að tjá sig um tillögurnar.

DEILA