Framkvæmdum við nýjan veg í Gufudalssveit og yfir Dynjandisheiði seinkar og verður ekki lokið fyrir en á árinu 2027 samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Í áætluninni sem Innviðaráðherra kynnti nú í hádeginu og hefur verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda er gert ráð fyrir 5.250 m.kr. fjárveitingu til Vestfjarðavegar um Gufudalssveit á árunum 2024-2027 og 4.350 m.kr. til vegagerðar á Dynjandisheiði á sömu árum. Á síðasta árinu 2027 eru 511 m.kr. í Gufudalssveitina og 200 m.kr. á Dynjandisheiði svo hugsanlega mun framkvæmdum ljúka að mestu á árinu 2026. Hingað til hefur verið miðað við að verkin klárist á árinu 2025.
Árið 2028 eru 500 m.kr. í 5 km langan veg um Þorpa í Tungusveit í Steingrímsfirði.
Á öðru fimm ára tímabili áætlunarinnar 2029-2033 eru áætlaðar 6.500 m.kr. til Bíldudalsvegar 30 km., 1.300 m.kr. í nýjan veg um Veiðileysuháls, 1.100 m.kr. í veg um Hvilftarströnd í Önundarfirði og 1.600 m.kr. í 15 km veg um Reykhólasveit frá Bjarkalundi og austur á bóginn.
Þá eru 1.650 m.kr. í 4 km veg í Önundarfirði Breiðadalur – Selaból á þriðja tímabilinu 2034-2038.