OV: fjárfesting um 900 m.kr.

Orkubú Vestfjarða áformar að fjárfesta á þessu ári fyrir um 900 m.kr. Er það svipað og í fyrra , að teknu tilliti til verðbreytinga, þegar fjárfestingar námu um 800 m.kr.

Nokkur jarðhitaverkefni eru á dagskránni. Í Tungudal í Skutulsfirði verða rannsóknarboranir og boruð verður 300 metra djúp rannsóknarhola á Patreksfirði. Vonir standa til þess að jarðhitaleitin skili þeim árangri að hægt verði að nýta jarðhita til kyndingar í stað raforku, bæði á Ísafirði og Patreksfirði, annaðhvort með beinni nýtingu jarðhitans, eða
með því að nota miðlæga varmadælu. Það gæti losað um allt að 12 MW afl í raforku á hitaveiturnar eða ¾ af afli allra veitnanna í dag.

Þá verður einnig borað á Gálmaströnd í Steingrímsfirði þar sem taldar eru góðar líkur á að finna jarðhita. Loks má nefna byggingu dæluhúss og uppsetning á búnaði á jarðhitasvæðinu á Laugum í Súgandafirði. Aukinn jarðhiti fannst árið 2019 að Laugum í Súgandafirði og gerir aukningin mun betur en að duga almennri notkun á Suðureyri.

Jarðhitaleit í Bolungavík og á Flateyri á síðasta ári skilaði ekki árangri.

Virkjanarannsóknir

Unnið verður að rannsóknum vegna Vatnsdalsvirkjunar innst í Vatnsfirði, þar sem Orkubú Vestfjarða hefur fengið útgefið rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. Þar er um að ræða 20-30 MW virkjunarkost sem gæti gjörbreytt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum yrði hann að veruleika. Útreikningar sýna að slík virkjun gæti aukið afhendingaröryggi raforku til 90% Vestfirðinga og vestfirskra fyrirtækja um 90%. Orkubúið hefur því sent formlegt erindi til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þar sem þess er farið á leit að friðlýsingarskilmálar friðlandsins í Vatnsfirði verði endurskoðaðir með það að markmiði að hægt sé að taka virkjun í Vatnsdal til skoðunar í Rammaáætlun.

Orkubú Vestfjarða vinnur nú að rannsóknum og mælingum vegna 9,9 MW Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, en jafnframt verður unnið að skipulagsgerð og umhverfismatsskýrslu á þessu ári. Virkjunin, verði hún að veruleika, hefur sambærileg áhrif fyrir íbúa nær svæðisins þar og Vatnsdalsvirkjun hefur fyrir íbúa á sunnan- og
norðanverðum Vestfjörðum. Samið hefur verið við landeigendur um nýtingu vatns- og landréttinda vegna virkjunarinnar.

Í ársskýrslu Orkubús Vestfjarða segir um þessa virkjunarkosti að báðir hafi þeir afgerandi áhrif á afhendingaröryggi raforku, verði þeir að veruleika, um leið og áhrifin á kolefnissporið eru mjög jákvæð.

Meðal annarra verkefna á þessu sviði eru undirbúningur að hækkun vatnsborðs Tangavatnsstíflu í Mjólká um 3 m.,
undirbúningur á endurnýjun vatnsvélar og rafbúnaðar í Tungudalsvirkjun í Skutulfirði og rafstöðvarhús í Flatey – sólarflekar á þaki og rafhlöður til jöfnunar álags á eldsneytisvélar með aflgetu 120 kW (0,12 MW).

DEILA