Norræna ráðherranefndin: mælir með aukinni neyslu á feitum fiski

Í gær var kynnt Sjötta útgáfa norrænna næringarráðlegginga sem gefin er út af norrænu ráðherranefndinni. Þar er lagt til að minna verði borðað af kjöti, kjúklingi og mjólkurvörum og meira af grænmeti, belgjurtum og fiski. Tekið er mið af næringarinnihaldi matvælanna og einnig áhrifum á umhverfið.

Sérstaklega er mælt með aukinni fiskneyslu og mælt með að neyta 300 – 450 grömm á viku af fiski og þar af verði a.m.k. 200 grömm af feitum fiski á viku. Þá er mælt með því af heilsufarsástæðum að neysla á rauðu kjöti verði innan við 350 grömm á viku og eins lítil og hægt er. Af umhverfisástæðum ætti kjötneyslan að vera eins lítil og hægt er.

Við ráðleggingarnar er litið til kolefnissporsins við framleiðslu matvörunnar og áhrifa á umhverfið. Horft er til þess hvernig ástand fiskistofna er og áhrif veiðanna á þá og umhverfið. Þá er fiskeldi metið á sama veg sem og kjötframleiðslan á landi. Eldisfiskur er feitur fiskur.

Kolefnisspor á veiðum á villtum fiski er einkum vegna notkunar á jarðefnaeldsneyti við veiðarnar og meðafli getur haft slæm áhrif. Þá geta botntrollveiðar haft slæm áhrif á lífríkið. Í fiskeldinu er kolefnissporið einkum vegna fóðurframleiðslunnar. Liðlega helmingur fæðuframleiðslunnar í heiminum er fiskur og sjávarmeti og mun fara vaxandi segir í skýrslunni.

Fram kemur í skýrslunni að kolefnisspor við framleiðslu á rauðu kjöti er fjórfalt til sjöfalt hærra en kolefnisspor kjúklingakjöts eða svínakjöts og að mikil neysla á rauðu kjöti á Norðurlöndum sé helsta skýringin á háu kolefnisspori vegna matvæla.

DEILA