Lögreglan: sein til svars í fánamálinu

Fánar Sjómannadagsins í Bolungavík og auð fánastöng milli þeirra þar sem þjóðfáninn var.

Á laugardaginn fyrir sjómannadag tók lögreglan á Vestfjörðum niður þjóðfánann af flaggstöng við Íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungavík. Var hún beðin um skýringar á því hvers vegna það var gert. Í svari sem barst segir aðeins:“Við tökum aldrei niður íslenska fánann með þessum hætti sem hér um ræðir nema að við teljum að fánalögum hafi ekki verið fylgt.  Þannig var það í þessu tilviki sem þú spyrð um.“

Var fyrirspurnin ítrekuð og spurt hvað það var sem ekki samrýmdist fánalögum. Í svari við ítrekuninni var vísað með hlekk í fánalögin og í leiðbeiningar stjórnarráðsins um notkun fánans með þeim orðum að „Hér, eins og ávallt, er lögreglan að rækja skyldur sínar.“

Hefur fyrirspurnin enn verið ítrekuð og óskað eftir upplýsingum um það sem ekki hafi samrýmst fánalögunum. 

DEILA