Lendingarstaður fyrir geimskip – útilistaverk

Bæjarráð hefur samþykkt að taka á móti listaverkinu – Lendingarstaður fyrir geimskip – á Seljalandsdal sem gjöf, eftir uppsetningu þess. Var bæjarstjóra falið að gera samning um afhendingu verksins eftir uppsetningu þess og leggja fyrir bæjarráð til samþykktar.

Það var Elísabet Gunnarsdóttir sem sendi inn erindið og var hún beðin um nánari upplýsingar um verkið og listamanninn:

Þýski listamaðurinn Björn Dahlem heimsótti Ísafjörður 2019 og skoðaði þá m.a. Skíðheima, gamla skíðaskálann á Seljalandsdal. Þar kviknaði sú hugmynd að reisa útilistaverk við bílastæðið framan við skálann þar sem útsýni er hvað best yfir Ísafjörð, Skutulsfjörðinn og Ísafjarðardjúp. Staðurinn er vinsæll áningarstaður ferðamanna og þá helst ferðamanna af skemmtiferðaskipum sem ekið er upp á Seljalandsdal í rútum. Verk Björns Dahlem er hluti af stærra verkefni þar sem hann reisir útilistaverk sem hann kallar lendingarstaði fyrir geimskip á völdum stöðum í mismunandi heimsálfum. Útilistaverkið á Seljalandsdal er að stórum hluta fjármagnað af Bauhaus skólanum í Weimar í Þýskalandi þar sem listamaðurinn kennir, en einnig hefur Uppbyggingarsjóður Vestfjarðar veitt vilyrði fyrir styrk til verkefnisins. Verkefnið er ekki fullfjármagnað en vonir standa til að hægt verði að koma því upp seinna í sumar.

DEILA