Arna Lára jónsdóttir, bæjarstjóri segir að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi ekki rætt nýja jarðgangaáætlunina en muni skila inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda. „Það vekur upp spurningar hvaða forsendur liggja að baki forgangsröðun í jarðgangaáætluninni. Það mun reyna á vel þjálfað langlundargeð Vestfirðinga ef þessi áform ganga eftir.“ Arn Lára segir það góðar fréttir að fá Breiðadalslegginn inn í áætlunina því það sé tímaspursmál hvenær slys verði í einbreiðum göngum „með fyrirsjáanlegri mikilli umferð þungaflutninga sem sækja í Ísafjarðarhöfn til að koma afurðum í útflutning ásamt öllum farþegaflutningum sem koma úr skemmtiferðaskipum. Einbreið göng bera ekki þessa umferð og það verður að grípa til aðgerða áður en alvarleg slys verða.“

Jóhann Birkir Helgason, oddviti D lista sjálfstæðismanna segir að listinn hafi ekki rætt sín í milli jarðgangaáætlunina eftir að hún kom fram, en það séu vonbrigði fyrir svæðið í heild að um 10 ár séu í næstu göng, en þó ánægjulegt að það séu áform um 5 jarðgöng á Vestfjörðum.
