Ísafjörður: áhyggjur af aðgerðum gegn kríuvarpi

Krían hefur látið á sér kræla.

Náttúrurstofa Vestfjarða hefur ritað bréf til Ísafjarðarbæjar og lýst yfir áhyggjum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða sem og fleiri aðila vegna nýlegra aðgerða Ísafjarðarbæjar við að beita hljóðupptökum af
varúðarhljóðum kríu til að fæla kríur við varpsvæði sín í botni Skutulsfjarðar.
Segir í bréfinu að krían sé friðuð tegund skv. lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) og „þótt lögin veiti heimild til tímabundinnar eggjatöku þá telja stofnanirnar að truflun af þeim toga sem notkun hljóðupptaka er á varptíma kríunnar sé ekki í anda 6. gr. laganna sem segir að „ávallt [skuli] gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun“.“

Ennfremur segir í bréfinu: „Í tilfelli kríunnar skiptir þetta sérstaklega máli því krían er skilgreind sem tegund í nokkurri hættu (VU) skv. válista Náttúrufræðistofnunar fyrir íslenska fugla (2018) og einnig því krían telst ábyrgðartegund á Íslandi þar sem 20-30% af heimsstofni hennar verpir hér á sumrin. Aðgerðir sem hætta er á að geta valdið viðkomubresti í tilteknu varpi eru því afar óheppilegar að mati stofnananna.“

Segjast stofnanirnar tvær gjarnan vilja veita ráðgjöf og aðstoða Ísafjarðarbæ við að finna betri lausn á þessu vandamáli og benda þær á fræðsluefni um kríuna sem hefði það markmið að auka samúð yngri kynslóða með kríunni með því að veita fræðslu um mikilvægi Íslands sem varp-og fæðuöflunar svæði tegundarinnar og leggja til að búa til nýtt varpsvæði fyrir kríuna t.d. „eyju“ í sjó í nágrenni við núverandi kríuvarp með von um að stofninn færi sig þangað með tímanum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar svaraði þessu með því að bóka að við undirbúning málsins hafi verið reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hafði fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutlsfirði um aðgerðir. „Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Þá skal áréttað að fjaran fyrir neðan Skutulsfjarðarbraut er á Náttúruminjaskrá (atriði nr. 317) og er því ekki valkostur að hrófla við landi þar, þrátt fyrir tillögur í bréfi Nave og Náttúrufræðistofnunar. Þá skal jafnframt bent á að umrætt svæði er skipulagt sem byggingaland, og er fyrirhuguð úthlutun á næstunni. Mikilvægt er því að finna kríunni góðan stað til framtíðarvarps í sveitarfélaginu.“

Fól bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Náttúrustofu Vestfjarða vegna málsins.

DEILA