Ísafjarðarbær: 14,2% hækkun fasteignamats

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fasteignamatið sem gildir fyrir næsta ár hækkar um 14,2% frá því sem gildir í ár í Ísafjarðarbæ. Heildarmat allra eigna verður 76,5 milljarðar króna í sveitarfélaginu og hækkar um 9,5 milljarða króna.

Mest er hækkunin hlutfallslega á sumarhúsum en mat þeirra hækkar úr 1.116 m.kr. í 1.406 m.kr. eða um 26%. Sumarhúsin eru 133 talsins. Íbúðareignir, sem eru 1.621, hækka næstmest í verði eða um 16,3%. Fasteignamat þeirra fer úr 49.651 milljónum króna í 57.754 milljónir króna. Hækkunin eru rúmur 8 milljarðar króna. Hækkunin mun að óbreyttum álagningarreglum skila sveitarfélaginu 45 m.kr. í hækkun á fasteignaskattinum einum og sér. Atvinnuhúsnæði hækkar minna í verði eða aðeins um 7% og verður mat þeirra 8.873 m.kr. á næsta ári. Hækkunin er um 583 m.kr. sem skilar nærri 10 m.kr. í hærri fasteignaskatti.

DEILA