Hálendisvegir á Vestfjörðum hafa verið opnaðir fyrr í sumar en á síðasta ári.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á föstudaginn opnaði Þorskafjarðarheiði fyrir almenna umferð 1. júní. Heiðin er gróf, laus í sér en þar er ekkert úrrennsli. Hún verður hefluð í kringum mánaðarmótin júní/júlí.
Steinadalsheiði opnaði fyrir almenna umferð 1. júní
Hrafnseyrarheiði opnaði fyrir 4×4 þann 7. júní. Þar var unnið að viðgerðum á föstudaginn og líklega fer 4×4 merkið af heiðinni seinnipartinn þann dag eða á laugardaginn, þjóðhátíðardaginn.
Fara á með jarðýtu á Kollafjarðarheiði í þessari eða næstu viku. Búist er við því að þar sé töluvert um úrrennsli og jafnvel snjór enn.
Svalvogavegurinn var opnaður á föstudaginn frá Dýrafirði að Hrafnabjörgum í Lokinhamradal. Veghaldið á “Svalvogaveginum” frá Alviðru í Arnarfirði að Lokinhömrum er á forræði Ísafjarðarbæjar. Unnið er að veginum undir Skútabjörgum en á föstudaginn voru ekki upplýsingar tiltækar um hvernig gengur.
Magnús Ingi Jónsson hjá Vegagerðinni segir að flestir þessara vega eru að opna mun fyrr en síðustu ár og nefnir sem dæmi að í fyrra opnaði Hrafnseyrarheiði 23. júní, Þorskafjarðarheiði 28. júní og Kollafjarðarheiði 8. júlí.