Flateyri: snjóflóðavarnir eru yfirgripsmikið ferli og tímafrekt

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að undirbúningur snjóflóðavarna á Flateyri séu yfirgripsmikið ferli þar sem áherslan sé á öryggi íbúanna. Hún var innt eftir því hvers vegna það muni taka þrjú ár að gera þær varnir sem ráðast á í og ákveðið hefur verið að auglýsa. Um það segir hún að í verkinu séu t.d. mikið af styrktum hliðum sem eru tímafrekar í uppsetningu.

Svarið í heild:

„Undirbúningur vegna endurbættra varna á Flateyri er yfirgripsmikið ferli þar sem útgangspunkturinn er að tryggja öryggi íbúa. Fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga á þátt í vinnu við endurbætur snjóflóðavarnanna sem m.a. hefur falist í umfangsmiklum líkanútreikningum. Fundir með íbúum Flateyrar og fulltrúum Ísafjarðarbæjar hafa verið haldnir reglulega, þar sem farið hefur verið yfir stöðu verksins til þess að tryggja gagnsæi og skilvirkt upplýsingaflæði.

Í framkvæmdinni felst að reistar verða þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði. Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði. Gengið hefur verið frá umhverfismati vegna framkvæmdanna og breytingar á skipulagi eru í vinnslu. Útboð á styrktarkerfum er hafið og er áætlað að tilboð verði opnuð í lok júní. Einnig er gert ráð fyrir að útboð á framkvæmdum hefjist á næstu vikum. Framkvæmdaröð og framkvæmdahraði í tilboðsgögnum byggir á reynslu á því hvað þykir hægt að vinna á hverju ári en í verkinu er t.d. mikið af styrktum hliðum sem eru tímafrekar í uppsetningu.

Mótaðar verða flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó. Þessi vinna hófst haustið 2021 þegar flóðrás meðfram leiðigarði undan Innra-Bæjargili var dýpkuð.

Byggður verður lágur en brattur leiðigarður ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.

Settar verða upp snjósöfnunargrindur á Eyrarfjalli, alls um 2 km,  til þess að draga úr tíðni flóða í byrjun vetrar úr upptakasvæðunum og þannig draga enn frekar úr hættu í byggð vegna iðufalds. Sumarið 2022 voru settar upp snjósöfnunargrindur og veðurstöð á Eyrarfjalli, ofan Flateyrar í tilraunaskini. Fylgst verður með virkni þeirra í þrjá vetur.

Styrkt verða glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð, í öllum húsum á áhættusvæði B, með áherslu á hús efst á hættusvæðinu. Sumarið 2021 voru styrkingar fyrir glugga- og dyraop í tveimur húsum við Ólafstún hannaðar og samtal átt við íbúa um útfærslur, gert er ráð fyrir að því samtali verði haldið áfram þar til niðurstaða fæst sem sátt verður um.

Vöktun er lík mikilvæg, Veðurstofa Íslands hefur sett upp radar á leiðigarðinn undan Skollahvilft sem mælir hraða flóða sem falla úr gilinu, annan radar við höfn sem nemur flóð sem falla úr nokkrum giljum við Flateyri og snjódýptarmæla í Innra-Bæjargil og Miðhryggsgil og auk þess hafa verið boraðar grunnvatnsholur til að fylgjast með vatnafari og grunnvatnsstöðu.

Ísafjarðarbær hefur lagt áherslu á að framkvæmdum verði hraðað eins og kostur er.“

Frétt frá Verkís um hönnun varnanna

Myndræn framsetning Verkís af fyrirhuguðum framkvæmdum.

DEILA