Fánamálið: þjóðfánanum var flaggað með félagsfána

Fánar Sjómannadagsins í Bolungavík og auð fánastöng milli þeirra þar sem þjóðfáninn var.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur upplýst að þjóðfáninn sem tekinn var niður í Bolungavík hafi verið flaggað með félagsfána og það sé skýringin á afskiptum hennar. Þjóðfáninn var með tveimur fánum Sjómannadagsins.

Í leiðbeiningum forsætisráðuneytisins um notkun fánans segir að ekki skuli „raða merkjum eða fánum sveitarfélaga, félaga eða fyrirtækja inn á milli þjóðfána. Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildum frá þjóðfánum.“ og má ætla að lögreglan styðjist við þetta ákvæði þótt ekki komi það beint fram í svörum hennar.

Þessi fyrirmæli eru ekki að finna í fánalögum. Þar stendur að enginn megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki. Þá segir í fánalögunum að óheimilt sé að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar. Það ákvæði getur ekki átt við í þessu samhengi. Loks segir í fánalögunum að lögreglan skuli hafa eftirlit með því, að enginn noti þjóðfána, sem er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara.

Leiðbeiningar forsætisráðuneytisins, sem vitnað er til, byggja því á því að ekki megi óvirða þjóðfánann.

Sjómannadagurinn er almennur fánadagur samkvæmt sérstökum lögum um sjómannadag. Það verður að teljast langsótt að telja það óvirðingu við þjóðfánann að hafa fána sjómannadagsins með honum. Þvert á móti er þjóðfánanum fullur sómi sýndur með fána sjómannadagsins. Ekkert í fánalögum gefur tilefni til þess að ætla annað.

Það var greinilega tilgangurinn með uppröðun fánanna í Bolungavík um sjómannadagshelgina að sýna bæði þjóðfánanum og sjómannadeginum virðingu og fullan sóma. Afskifti lögreglunnar byggja á því að annað hugarfar búi að baki. Það er ekki. Öðru nær.

-k

DEILA