Bolungavík: uppbygging 26 íbúða á Bjarnabúðarreit

Bjarnabúð sem skipulagsreiturinn er kenndur við var byggt árið 1919.

Bæjarráð Bolungavíkur hefur samþykkt samning við Nostalgíu ehf á Suðureyri sem þróunaraðila um landsvæði merkt Bjarnarbúðarreitur í deiliskipulagi sveitarfélagsins. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði með hverfisvernd samkvæmt aðalskipulagi 2008-2020. Um er að ræða framkvæmd sem þróunaraðili hefur óskað eftir að fara í á eigin vegum með það markmið að endurgera deiliskipulag svæðisins með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi. Hafa aðilar af þessu tilefni komist að samkomulagi um afnot af landi til uppbyggingar.

Fyrirhuguðum framkvæmdum er skipt í þrjá áfanga og skal sá fyrsti hefjast eigi síðar en 1. september 2023 og vera lokið í lok apríl 2025. Annar áfangi verði unninn á árunum 2025 og 2026 og lokaáfanginn 2027 og 2028 og vera lokið í september lok þess árs.

Bolungarvíkurkaupstaður  fellur frá gatnagerðargjöldum,  heimæðargjöldum, fráveitugjöldum, afgreiðslugjöldum og hverskonar öðrum stofngjöldum vegna þeirra lóða sem að samningur þessi fjallar um, í ljósi markmiðs samnings þessa og þar sem þróunaraðili mun kosta og hafa umsjón með framangreindum framkvæmdum.

Fram kemur í samningnum að markmið samningsins er að gera deiliskipulag sem þéttir byggð samkvæmt skilmálum aðalskipulags um miðsvæði þannig að alrými miðbæjar verði gott við nýjar 20-25 íbúðir sem byggðar verða upp í 5-6 klösum innan skipulagssvæðis.

Á uppdrættinum er gert ráð fyrir að byggt verði hús á reit gamla hótelsins, hótel Búðanes með 4 -5 íbúðum.

Tillaga að skipulagi Bjarnabúðarrreitsins.

Samningurinn verður tekinn til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

DEILA