Vilborg Ása verður skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri næsta skólaár

Vilborg Ása Bjarnadóttir hefur verið ráðin tímabundið sem skólastjóri við Grunnskólann á Suðureyri og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi. Vilborg Ása mun leysa Hrönn Garðarsdóttur af til eins árs, en Hrönn tók að sér tímabundið starf verkefnisstjóra á Flateyri.

Vilborg Ása útskrifaðist af hárgreiðslubraut við Iðnskólann í Hafnarfirði árið 1990 og svo með meistararéttindi í háriðn við Iðnskólann í Reykjavík 1994. Hún lauk B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri 2008 og öðlaðist í kjölfarið leyfisbréf til kennslu. Þá lauk hún M.Ed. gráðu í sérkennslufræði við Háskóla Íslands 2016.

Vilborg Ása hefur yfirgripsmikla kennslureynslu og er öllum hnútum kunnug í Grunnskólanum á Suðureyri. Hún hefur starfað við kennslu hjá Ísafjarðarbæ frá aldamótum, fyrst sem leiðbeinandi við leikskólann Tjarnarbæ 1997-1998 og 2001, svo sem leiðbeinandi/ umsjónarkennari árin 2001-2008 í Grunnskólanum á Suðureyri og sem grunnskólakennari/umsjónarkennari frá 2008-2023. Þá hefur hún einnig unnið sem sérkennari á tímabilinu 2012-2023 og verið staðgengill skólastjóra undanfarin misseri.

DEILA