Viðgerðir á samkomuhúsinu í Ögri

Samkomuhúsið Ögri. Mynd: aðsend.

Viðgerðir standa yfir á samkomuhúsinu í Ögri. Einkum er um að ræða endurnýjun á gólfi en það var illa farið. Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra er talsverður kostnaður vegna framkvæmdanna.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tók fyrir á síðasta fundi sínum erindi um stuðning við framkvæmdirnar.

„Í erindinu er ekki beint farið fram á styrk, en þar sem um er að ræða lýsingu á viðgerð auk útlistan á kostnaði við það er það borið upp sem slíkt erindi, með beiðni um skoðun hjá Súðavíkurhreppi hvort unnt sé að leggja eitthvað til.“

Bragi Þór segir málið vera mörgum hugleikið og þar sem eignarhald á húsinu er í höndum félaga sem hafa flest verið aflögð óskar Súðavíkurhreppur eftir því við þá sem að verkinu standa að eignarhald á húsinu verði skýrt. „Það er stefnan að styrkja slíka félagastarfsemi líkt og áður hefur verið gert, en þarf að vera skýrt hver þiggur styrkinn og í hvaða tilgangi.“

Sveitarstjórnin frestaði afgreiðslu erindisins og vill að eignarhald samkomuhússins verði skýrt áður en styrkur er veittur til framkvæmdanna.

„Ögurhreppur er einn þeirra hreppa sem teljast til Súðavíkurhrepps í dag og því ekki óeðlilegt að sama gildi og varðandi samkomuhúsið hér í Súðavík, en til þess að það verði þarf að liggja fyrir skýrt eignarhald og stefna um nýtingu hússins.“ sagði Bragi Þór að lokum.

DEILA