Torfnes: vilja útikörfuboltavöll

Körfuknattsleiksdeild Vestra hefur sent erindi til íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar og vekja athygli á því að tilvalið sé að fara í framkvæmdir við útikörfuboltavöllinn á Torfnesi á sama tíma og framkvæmdir standa yfir í haust við lagningu á gervigrasi á knattsprnuvellinum. Þá verða vinnuvélar og iðnaðarmenn við vinnu á vellinum.

Minnt er á að körfuknattleiksdeild Vestra fékk vilyrði fyrir uppbyggingarsamningi við gerð á útikörfuboltavelli á Torfnesi. Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar þann 5. maí 2022 að deildin fengi 1.714.285 kr. í þá framkvæmd. Talið er að vel sé hægt að rökstyðja að þeim fjármunum verði varið til að gera þennan útikörfuboltavöll. Boðið er fram vinnuframlag frá körfuknattleiksdeild Vestra ef með þarf.

Í niðurlagi erindisins segir „að nánast öll aðstaða til körfuknattleiksiðkunar utandyra í sveitarfélaginu er til skammar. Við erum með gríðarlega marga iðkendur sem eru mætt út á körfuboltavöll um leið snjóa leysir og því mikilvægt að gera aðstöðuna eins góða og kostur er. Við fáum ekki betri tímapunkt en einmitt þennan til þess að fara í þessa framkvæmd.“

Íþrótta- og tómstundanefnd tók vel í erindið um uppbyggingu á útikörfuboltavelli á Ísafirði en frestaði því þangað til framtíðarskipulag svæðisins liggur fyrir.

DEILA