
Sólstólpi er orðið sem hér er notað yfir fyrirbærið sem sýnt er á meðfylgjandi mynd. Einnig hafa verið notuð orðin sólarsúla og sólstöpull.
Sólstólpi verður til þegar sólarljós speglast á efra eða neðra borði ískristalla. Stöplar myndast oftast við speglun á flötum ískristöllum (plötum/flögum).
Langoftast eru kristallarnir í háum blikuskýjum eins og hér, en fyrir kemur að fyrirbrigðið sést í lægri skýjum. Það er þó sjaldgæft þar sem mikill meirihluti lægri skýja er samsettur úr vatnsdropum en ekki ískristöllum. Sömuleiðis má stundum sjá ámóta fyrirbrigði yfir ljósum eða kösturum á jörðu niðri.
Myndun snertibaugsins er flóknari heldur en hin einfalda speglun stólpans, því þar sjáum við sólargeisla sem farið hafa inn í kristalinn, brotnað þar og þannig breytt um stefnu.
Tilvera snertibaugsins í þessu tilviki bendir til þess að hér hafi ekki verið um flatar kristallaplötur að ræða heldur það sem kalla má stuðulskristalla (blýantskristall). Blikan sem ískristallarnir eru í er óvenju þunn á þessari mynd og í fljótu braðgði virðist stólpinn hanga í heiðríkju.
Af vedur.is