Skútan er tölvukerfi fyrir skipaskrá og lögskráningu sjómanna

Samgöngustofa hefur tekið í notkun nýtt tölvukerfi fyrir skipaskrá og lögskráningu sjómanna sem fengið hefur nafnið Skútan. Hún leysir af hólmi fimm tölvukerfi sem að stofni til eru frá árinu 2002.

Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að Skútan sé nútímalegri og notendavænni að öllu leyti. Auðveldara verður að uppfæra hana að þörfum notenda og lagalegum kröfum. Jafnframt skapast möguleiki á því í framtíðinni að sjómenn geti nálgast upplýsingar um sjálfan sig í gegnum island.is, t.d. um sína menntun og þjálfun, atvinnuskírteini sín og gildistíma þeirra, siglingatíma og öryggisfræðslu sem þeir hafa lokið og hvenær þarf að endurnýja hana.

Skipaskrá geymir upplýsingar um hvaða skip eru á skipaskrá, allar tækniupplýsingar um skipin og búnað þeirra, skoðanir og eftirlit á skipum og skipsbúnaði, útgáfu skips- og haffærisskírteina og gildistíma þeirra.

Lögskráning sjómanna er aðeins aðgengileg menntastofnunun til innfærslu á námi og námskeiðum sem sjómenn hafa lokið og þeim sem hafa aðgang til að lögskrá á skip eftir því sem útgerð ákveður hverju sinni að undangenginni umsókn til Samgöngustofu.

Á grundvelli persónuverndarsjónarmiða geta aðeins aðilar sem hafa lögvarða hagsmuni sótt um lesaðgang að lögskráningu sjómanna og á það einkum við um opinbera eftirlitsaðila og stéttarfélög sjómanna.

DEILA