Skjaldborgarhátíðin: Skuld hlaut hvatningarverðlaunin

Rut og Kristján Torfi. Mynd: skjaldborg.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda var haldin á Patreksfirði í sextánda sinn um liðna
hvítasunnuhelgina. Sautján íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og fimm verk í vinnslu voru kynnt.
Aðsókn á hátíðina var með mesta móti og var salurinn í Skjaldborgarbíói þéttsetinn af áhorfendum alla
helgina. Hátíðinni lauk formlega í gærkvöld en samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í
skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni dagskrá í Skjaldborgarbíói.
Verðlaunaafhending fór fram í félagsheimilinu og í kjölfarið tróðu Ívar Pétur og Hermigervill upp sem
TWIN TWIN SITUATION og gestir dönsuðu inn í vestfirsku vornóttina.


Höfundar myndanna tóku við verðlaunum en tækjaleigan Kukl og eftirvinnslufyrirtækið Trickshot veita
veglegt verðlaunafé til vinningshafa Einarsins og Ljóskastarans sem hvor um sig hlýtur inneign að
verðmæti 500 þúsund krónur í tækjaleigu og 250 þúsund krónur í formi eftirvinnslu.
Dómnefnd Skjaldborgar 2023 var skipuð þeim Margréti Bjarnadóttur, danshöfundi og myndlistarkonu,
Antoni Mána Svanssyni, kvikmyndaframleiðanda og Jóni Bjarka Magnússyni, mannfræðingi og
heimildamyndahöfundi.

Skuld hlaut hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlaut Skuld eftir Rut Sigurðardóttur.

En Skuld ÍS 21 er gerð út frá Flateyri og eigandi er Kristján Torfi Einarsson.
Í umsögn dómnefndar segir: „Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem dómnefndarmeðlimum þótti sérstaklega hlý, fyndin og falleg. Mynd sem opnar glugga inn í heim smábátaeigenda og handfæraveiða á persónulegan og heillandi máta. Höfundur beitir sterkri sjónrænni nálgun og fer einstaklega vel með hlutverk sitt allt í kring um myndavélina svo úr verður allsherjar óður til ástarinnar, framtaksseminnar – og strandveiða.“

Um Skuld:
Ungt par hættir skuldastöðu sinni og sambandi er þau feta í fótspor forfeðra sinna og gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum. Framtíð þessarar elstu atvinnugreinar þjóðarinnar er óviss og virðist sem einungis einstaka sérvitringur stundi þetta basl, eða hvað?
Leikstjóri: Rut Sigurðardóttir
Framleiðandi: Rut Sigurðardóttir
Tónskáld: Kristján Torfi
Klippari: Einar Snorri
Stjórn kvikmyndatöku: Rut Sigurðardóttir.

DEILA