Langeyri: framkvæmdir samkvæmt áætlun

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir kostnað af framkvæmdum við Langeyri vera samkvæmt áætlun. Verksamningur var gerður um dýpkun við Sundabakka og áætlað magn, auk þess sem samningur var gerður við Súðavíkurhrepp um flutning efnis úr uppdælingu til notkunar við landfyllingu við Langeyri. Fyrirtækið Björgun sér um verkefnið vegna uppdælingar og flutning efnis til Súðavíkur. Samkvæmt samningi er heildarfjárhæð kr. 437.200.000 vegna dýpkunar/uppdælingar og flutnings, en með viðauka verður kostnaður Súðavíkurhrepps um 102.903.180, eða um 24%. Í því er innifalið flutningur efnis fyrir kr. 81.720.000 og aðstöðusköpun kr. 21.183.180.

Bragi Þór upplýsti sveitarstjórn Súðavíkur um framgang verksins og samantekinn kostnað vegna hafnarframkvæmda. Þar sem Vegagerðin kemur að verkefninu er skipting kostnaðar miðað við aðkomu að stálþili, fyrirstöðugarði og efnistöku vegna verksins, en endalegar tölur liggja ekki fyrir.

Þegar hefur verið greitt beint fyrir verkefnið um 186.227.476 kr. eftir næsta gjalddaga vegna verkstöðu við fyllingu.

Inni í þessum tölum eru ekki reikningar vegna hönnunar, útboðs og kaupa á stálþili svo og frágangs lóðar að öðru leyti né fyrir vinnu annarra sérfræðinga. Enn á eftir að dæla upp og flytja að landfyllingu milli 12 og 15000 rúmmetra sem samkvæmt áætlun á að ljúka í júní 2023. „Heildarkostnaður sem fallið hefur á Súðavíkurhrepp og hafnarsjóð Súðavíkurhafnar er líklega nærri 200 mkr., en sennilega heldur hærra. Það er ekki tímabært að gera þann kostnað upp enda eru framkvæmdir yfirstandandi og útboðsmál vegna stálþils ennþá í gangi.“

DEILA