Landsnet: tvö verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum – kosta um 4,5 milljarða kr.

Mjólká. Mynd: ov.is

Í drögum að framkvæmdaáætlun Landsnets fyrir árin 2024-2026 eru tvö verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum sem samtals er áætlað að kosti 4,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2024 og þeim ljúki í lok árs 2025.

Fyrra verkið er Mjólká – endurnýjun 66 kV tengivirkis sem þar er. Í skýringum segir að verkefnið sé sett af stað núna til þess að ná fram samlegðaráhrifum með lagningu Mjólkárlínu 2. Virkið er einnig útsett fyrir seltu þar sem það stendur við Arnarfjörð og því mikilvægt að koma búnaðinum inn til að minnka líkur á útleysingum.

Byggja á nýtt 66 kV tengivirki í Mjólká og tengja Tálknafjarðarlínu 1, Breiðadalslínu 1, Mjólkárlínu 2 og þrjá spenna við tengivirkið ásamt niðurrifi á eldra tengivirki. Kostnaður er áætlaður 1.363 m.kr.

Seinni verkefnið er að styrkja flutningskerfið þar. Það verður gert með því að auka möskvun á svæðinu með innbyrðis
tengingum á milli Breiðadals, Mjólkár og Keldeyrar. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á sunnanverðum Vestfjörðum.

Lagður verður nýr 66 kV jarðstrengur (ca. 2,4 km) frá Bíldudal meðfram sunnanverðum Bíldudalsvogi að landtaki á Haganesi. Nýr 66 kV sæstrengur (ca. 11,8 km) verður lagður yfir Arnarfjörð fyrir Langanes með landtak í Auðkúlubót. Að lokum verður svo lagður 66 kV jarðstrengur frá Mjólká og að landtaki sæstrengs í Auðkúlubót að mestu samhliða þjóðvegi nr. 60 (Vestfjarðavegur milli Mjólkár og Hrafnseyrar) og sett verður upp 3,65 MVAr spóla. Í Mjólká verður bætt við nýjum 66 kV rofareit. Á Bíldudal þarf svo að bæta við nýju 66 kV tengivirki með þremur rofareitum.

Kostnaður er talinn verða 3.108 milljónir króna.

DEILA