Landsnet: byrjað á tengivirki í Djúpinu 2026

Hvalárvirkjun er stærsta virkjunin á Vestfjörðum sem er í undirbúningi.

Í drögum að áætlun um framkvæmdaverk Landsnets fyrir árin 2024 – 2026 kemur fram að byrjað verður á nýju tengivirki í Ísafjarðardjúpi á síðari hluta árs 2026 og og að þeim ljúki árið 2028. Settur er þó fyrirvari um tímasetningina sem lýtur að framgangi virkjanaáforma á svæðinu. Þetta þýðir að Landsnet fer ekki af stað með neinar framkvæmdir fyrr en ljóst er að framkvæmdir virkjanaaðila séu hafnar

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1, þar sem byggt verður nýtt tengivirki. Verða því byggð tvö tengivirki í Kollafirði og í Ísafjarðardjúpi, og 26 km löng 132 kV raflínu á milli þeirra.

Kostnaður er talinn verða 2.275 m.kr.

Upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust síðari hluta árs 2022 og að þeim lyki með spennusetningu seinni hluta árs 2024 en vegna frestunar á virkjanaframkvæmdum í Djúpinu þá hefur verkefnið verið fært aftur til 2026. Gert er ráð fyrir að lokafrágangur fyrir verkefnið ásamt tengdum verkefnum verði í gangi fram á árið 2029.

Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum.

Í frekari skýringum segir að verkefnið sé hluti af tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið og er með þeim fyrirvara að af byggingu virkjunarinnar verði, eða annarrar virkjunar sem uppfyllir skilmála um tengingu. Tímasetning
framkvæmda við tengipunktinn er einnig háð uppbyggingu Hvalárvirkjunar. Allir útreikningar, bæði tæknilegir og fjárhagslegir, vegna valkostagreiningar eru byggðir á tilkomu 55 MW vatnsaflsvirkjunar í Hvalá.

DEILA