Knattspyrna – Vestri með lið í yngri flokkum

Nú er boltinn farinn að rúlla í Íslandsmótinu og þar tekur Vestri að sjálfsögðu þátt. Tveir leikir komnir hjá meistaraflokki karla, eitt tap og jafntefli.

En um liðna helgi byrjuðu yngri flokkar knattspyrnudeildar Vestra að spila fyrstu leikina í Íslandsmótinu.

3.flokkur drengja spilaði fyrsta heimaleikinn á Skeiðisvelli í Bolungarvík. Þeir fengu góðan stuðning nokkurra stúlkna úr 2. flokki þar sem tæpt var að ná í lið í þessum fyrsta leik. Liðið stóð sig með miklum sóma og leikar enduðu 2-2.

3.flokkur stúlkna hélt suður á bóginn og byrjuðu helgina á því að gera jafntefli við Breiðablik. Seinni leikurinn var á móti Njarðvík þar sem okkar stúlkur báru sigur út bítum.

4. flokkur stúlkna hélt suður á Selfoss og spiluðu þar hörku leiki. Báðir leikir töpuðust en stelpurnar stóðu sig virkilega vel.  Ferðin heppnaðist vel og stelpurnar til fyrirmyndar að öllu leyti.

4. flokkur drengja hélt einnig suður á bóginn eða alla leið á Hellu. Spiluðu þar tvo leiki sem báðir unnust. Fyrri leikurinn fór 7-2 og sá seinni 7-3.

Á næstu helgi eru bæði 5 og 4. flokkur stúlkna að spila heimaleiki á gervigrasvellinum á Ísafirði.

Á laugardaginn klukkan 15:00 er leikur hjá 4.flokk við Aftureldingu og á sunnudag er 5. flokkur að spila við Hamar/Ægir klukkan 13:00 og 14:15.

Leikir í yngri flokkum geta verið virkilega spennandi rétt eins og hjá þeim í meistaraflokki svo að sem flestir ættu að mæta og horfa á.

DEILA