Hvalveiðar: lágt kolefnisspor miðað við annað kjöt

Hlýnun jarðar af mannavöldum er orðið stærsta viðfangsefni stjórnmálamanna um allan heim þar sem verkefnið er að vinna gegn hlýnuninni. Virtar alþjóðastofnanir telja mikla vá fyrir dyrum að óbreyttu og það verði að stöðva þróunina og snúa henni við. Allt snýst um loftslagstegundir sem verða til við ýmsa starfsemi og safnast upp í lofthjúpnum og valda því að hitastig á jörðinni hækkar. Ráðið er því að breyta framleiðsluháttum þannig að minna magn af umræddum loftslagstegundum verði til og einnig að finna ráð til þess að ná þeim aftur út úr lofthjúpnum.

matvælaframleiðsla 35% af vandanum

Kolefnissporið við framleiðslu á tiltekinni vöru gefur upplýsingar um það magn af loftslagstegundum sem verða til. Kolefnisdíoxíð er sú sem algengust er en ýmsar aðrar tegundir eru varasamar. Á vef breska útvarpsins BBC var í desember síðastliðinn athyglisverð grein um þessi mál. Vakin var athygli á því að um 35% af öllum þessum skaðlegu áhrifum af mannavöldum verða til við matvælaframleiðslu. Þar er bent á að laga megi ástandið með því að fara úr fæðuframleiðslu með hátt kolefnisspor yfir í aðra með lægra kolefnisspor.

Áberandi hæsta kolefnissporið er vegna nautakjöts- og kindakjötsframleiðslu. Vitnað er til rannsóknar  National Centre for Scientific Research í Frakklandi sem gerð var 2021.

Tafla úr grein BBC sem birtist 16.12. 2022.

Þar sést hvað nautakjötframleiðslan hefur hátt kolefnisspor t.d. miðað við fisk eða 49,89 kg af gróðurhúsalotfslagstegundum til framleiðslu á 100 g af próteini. Eldisfiskur er til samanburðar með 5,98 kg sem er innan við 1/8 af nautakjötsframleiðslunni.

Loftslagsráð Bretlands mælir með því til þess að draga úr kolefnispori við matvælaframleiðslu að draga úr mjólkur- og kjötneyslu um 20% fyrir 2030 og um 35% fyrir 2050.
Með öðrum orðum að draga úr framleiðslu með hátt kolefnisspor og færa neysluna á matvöru með lægra kolefnisspor. Greinilegt er að til mikils er að vinna að draga úr kjöt- og mjólkurvöruneyslu.

Hvalkjöt 1,9 kg

Víkjum þá að rannsókn um kolefnispor fyrir hvalkjöt. Norsku samtökin High North Alliance gerður árið 2007 athugun á því. Þrjátíu hvalveiðbátar lönduðu 461 tonni af hvalkjöti (hrefnu) og olíunotkunin við veiðarnar jafngilti 885 tonnum af karbondíoxíði. Kolefnissporið fyrir hvert veitt kg var því 1,9 kg af CO2. Til samanburðar var kolefnisspor nautakjöts 15,8 kg samkvæmt upplýsingum samtakanna, 6,4 kg fyrir svínakjöt og 4,6 kg fyrir kjúklingakjöt. Hvöttu samtökin til neyslu á hvalkjöti og draga þannig úr hlýnun jarðar af mannavöldum.

Ekki er í töflu BBC né hjá norsku samtökunum upplýsingar um kolefnisspor á veiðum á villtum fiski en í skýrslu Environice frá nóvember 2018 um kolefnisspor laxeldis kemur fram að fyrir línuveiddan þorsk er það 1,58 kg og 5,14 kg fyrir þorsk veiddan með botnvörpu. Í þeirri skýrslu er kolefnisspor nautakjöts 28,73 kg og lambakjöts 27,91 kg.

Eins og sjá má eru tölurnar nokkuð breytilegar eftir rannsóknum, enda mismunandi hvað er reiknað í kolefnissporið af framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu en megindrættirnir eru skýrir.

Það er mjög hátt kolefnisspor við framleiðslu á nauta- og kindakjöti og matvælaframleiðslan yfirhöfuð er einn af stærstu áhrifaþáttunum í hlýnun jarðar af mannavöldum. Það er því mikils að vinna í loftslagsmálum ef kjötneyslan færist t.d. yfir í kjöt með lágt kolefnisspor eða þá fiskneysla verði aukin þar sem kolefnissporið er miklu lægra bæði við veiðar á villtum fiski og ekki síður á eldisfiski.

Tafla úr skýrslu Environice frá 2018.

42.000 tonn af CO2

Hvalveiðar Íslendinga eru ekki umfangsmiklar. Útflutt hvalkjöt síðustu ár hefur verið innan við 2000 tonn á ári. Þegar mest var upp úr 1980 nálgaðist magnið 5.000 tonn. Útgefin veiðiráðgjöf í langreyði og hrefnu , um 200 dýr á ári af hvorum stofni, er mjög lítil miðað við áætlaða stofnstærð og hæglega mætti auka veiðarnar töluvert. En ef til dæmis væri miðað við 3.000 tonn af hvalkjöt á ári þá myndi miðað við tölurnar í norsku rannsókninni ávinningurinn í formi minnkaðs kolefnisspors verða um 42.000 tonn CO2 miðað við að neyslan færðist úr nautakjöti yfir í hvalkjöt. Það munar um það. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um losum gróðurhúsalofttegunda sem kom út í fyrra kemur fram að árið 2020 var samanlögð losun af innanlandsflugi og strandsiglingum um 38.000 tonn CO2. það er minna er ávinningurinn af því að færa neysluna yfir í hvalkjöt.

Það vantar í BBC greinina og skýrslu Ervironice upplýsingar um kolefnisspor hvalkjöts en þó er ljóst að það er miklu lægra en af nauta- eða kindakjötsframleiðslu. Sé kolefnisspor hvalkjöts reiknað til jafns við þorsk eða fisk í þeim töflum verður samdráttur í gróðurhúsaloftslagstegundum líklega nærri tvöfalt meira eða um 80.000 tonn í seinna tilvikinu og ekki minna í þeirri fyrri.

Niðurstaðan er því sú að jafnvel mjög hóflegar hvalveiðar munu draga umtalsvert úr kolefnisspori Íslendinga.

Það er alveg óþarfi að þegja yfir því.

-k