Grænlandssjóður: hæsti styrkurinn til menningarsamskipta norður Grænlands og Vestfjarða

Leikvöllur í Nuuk. Mynd: Norden.org

Fimm verkefni hlutu styrk úr Grænlandssjóði árið 2023 að upphæð 3.835.000. Verkefnin eru skólaferðalag, æfingaferð, þýðing og ráðstefna, skákmót og sýning. Alls bárust 20 umsóknir um styrk.

Hlutverk Grænlandssjóðs er að efla samskipti Grænlands og Íslands. Sjóðurinn veitir styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda sem geta stuðlað að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga.

Hæsta styrkinn, 1.043.000 krónur, hljóta Christine Odderskov og Kommuneqarfik Sermersooq fyrir sýningu í safninu í Ittoqqortoormiit um menningarsamskipti Norðaustur Grænlands og Vestfjarða. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Byggðasafn Vestfjarða.

Anna Margrét Bjarnadóttir hlýtur 1.000.000 krónur fyrir grænlenska þýðingu á bókinni „Tómið eftir sjálfsvíg“ og skipulagningu á ráðstefnu í Nuuk.

Cecilie Marie Hardenberg hlýtur 750.000 króna styrk fyrir ferð 9. bekkjar A í Atuarfik Samuel Kleinschmidt Nuuk til Íslands.

Nuuk Shotokan Karate-Do og Lissi Bech Ottosen hljóta 626.000 krónur fyrir æfingaferð barna og ungmenna frá Nuuk til Karatefélagsins Þórshamars og Karatedeildar Breiðabliks.

Skákklúbburinn Nuuk Skak Klub hlýtur 416.000 króna styrk fyrir skákmóti í Nuuk til minningar um Hrafn Jökulsson.

Grænlandssjóður starfar samkvæmt lögum nr. 108/2016. Stjórn Grænlandssjóðs er skipuð Karítas Ríkharðsdóttur, formanni sjóðsstjórnar, Bryndísi Haraldsdóttur, fulltrúa Alþingis og Óttari Makuch Guðlaugssyni, fulltrúa utanríkisráðuneytis.

DEILA