Gísli Halldór nýr sviðsstjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði

Gísli Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Árborg hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra fjármála og framkvæmda hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Gísli Halldór starfaði sem bæjarstjóri Árborgar 2018-2022 og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar 2014-2018. Á árunum 2004-2014 var hann fjármálastjóri Menntaskólans á Ísafirði. Gísli lauk Cand. Oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og námi í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2010.

Gísli Halldór hefur störf hjá Vatnajökulsþjóðgarði þann 1. júní nk. 

Gísli Halldór sagðist vera spenntur fyrir nýja starfinu. Það tengdist auk þess að nokkru leyti námi hans í auðlindastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Um væri að ræða starf án staðsetningar og hann yrði áfram búsettur á Eyrabakka. Hins vegar væri Vatnajökulsþjóðgarður víða með starfsstöðvar og hann myndi fara um landið á næstunni og kynna sér þær. Stærsta skrifstofan væri á Hornafirði. Þá væri framundan sameining stofnana sem heyra undir Umhverfisráðuneytið og Vatnajökulsþjóðgarður verður hluti af þeirri uppstokkun.

DEILA