Fasteignamat hækkar mest á Vestfjörðum

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kynnti í morgun nýtt fasteignamat sem mun gilda fyrir næsta ár 2024. Meðalhækkun frá þessu ári er 11,7% en mest er hún á Vestfjörðum, en þar hækka fasteignir um 17,3%. Hafa ber í huga að verðbólga milli ára er 10,2%. Miðað er við verðbreytingar frá febrúar 2022 til febrúar 2023. Að teknu tilliti til verðbólgu er um 1% raunhækkun á mati fasteigna milli ára.

Mat íbúða hækkar meira en meðaltalið og á Vestfjörðum hækkar mat íbúða um 20,5%, sem er það næstmesta á landinu. Á Austurlandi hækkar íbúðamatið um 22,4%. Einkum eru það eignir á sunnanverðum Vestfjörðum sem hækka í verð. Í Vesturbyggð er hækkunin 33,6% og 43,5% í Reykhólahreppi. Atvinnuhúsnæði hækkar aðeins um 4,8% á landinu að meðaltali og er það innan við helmingur verðbólgunnar. Að teknu tilliti til verðbólgu þá lækkar raunverð atvinnuhúsnæðis.

Þrátt fyrir hækkunina á fasteignum á Vestfjörðum er mat eignanna lágt og er heildarvirði þeirra aðeins 0,9% af virði fasteigna á landinu en um 2% íbúa landsins búa í fjórðungnum.

DEILA