Bolungavík: halli af rekstri en skuldir lækka

Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur samþykkt ársreikning sveitarfélagsins fyrir síðasta ár. Halli varð af rekstri A hluta um 119 m.kr. og að meðtöldum stofnunum sveitarfélagsins varð niðurstaðan að reksturinn var gerður upp með 90 m.kr. halla.

Tekjur A hluta ( bæjarsjóðs) á árinu urðu 1.448 m.kr. og jukust um 143 m.kr. heildartekjur samstæðunnar urðu 1.630 m.kr. og voru 104 m.kr. hærri en árið áður. Sjá má áhrif af vaxandi verðbólgu í tölum um fjármagnstekjur og – gjöld. Fjármagnstekjurnar jukust um nærri 50% og urðu 63 m.kr. en höfðu verið 43 m.kr. árið áður. Fjármagnsgjöldin jukust einnig verulega og voru í fyrra 231 m.kr. og hækkuðu úr 138 m.kr. sem er 93 m.kr. hækkun.

Skatttekjur ársins voru 818 m.kr. og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 321 m.kr. Hækkun skattteknanna var um 10,5% milli ára.

Skuldir og skuldbindingar A hluta voru í árslok 1.958 m.kr og 2.460 m.kr. fyrir alla samstæðuna. Sem hlutfall af tekjum voru skuldir A hluta 136% og lækkuðu úr 139%. Skuldahlutfall samstæðunnar var í árslok 152% af tekjum og lækkaði lítils háttar en það var 157% árið áður.

Skuldahlutfallið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga var í árslok 99% fyrir A hlutann og lækkaði úr 105% árinu áður. Fyrir A og B hlutann samstals var þetta skuldahlutfall 104% og lækkaði úr 111%.

Íbúum fjölgaði á árinu um 41. Þeir voru 956 í upphafi árs en 997 í lok ársins.