Barnamenningarsjóður: 4 styrkir til Vestfjarða að fjárhæð 11 m.kr.

Frá athöfninni á Alþingi í gær. Mynd: stjórnarráðið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynntu í gær um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls hljóta 41 verkefni styrk en heildarfjárhæð styrkja nemur 96,8 milljónum króna. Er þetta í fimmta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum. Tilkynnt var um úthlutun styrkja við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknir og samþykkti forsætisráðherra tillögur stjórnar Barnamenningarsjóðs um úthlutun styrkja. Í starfi og reglum sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Til verkefna á Vestfjörðum voru veittir fjórir styrkir.

Vestfjarðastofa – kr. 4.600.000 – Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum
Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum fer fram í fjórðungnum gervöllum, með virkri þátttöku barna og
ungmenna, allt frá undirbúningi að framkvæmd og frágangi. Hátíðinni er ætlað að efla menningu barna
og ungmenna á Vestfjörðum án tillits til uppruna, menningar eða kynvitundar. Henni er ætlað að kynna
fjölbreytilega menningu og hvetja börn til dáða í skapandi greinum, efla lýðræðisvitund þeirra og
forystuhæfileika, og þroska menningarvitund þeirra. Verkefnið er unnið í samstarfi allra grunnskóla og
fjölda menningarstofnana á Vestfjörðum.

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg – kr. 4.500.000 – Skjaldbakan
Skjaldbakan er fræðslu- og barnastarf Skjaldborgar — hátíðar íslenskra heimildamynda. Hún skríður
um landið og býður upp á námskeið í heimildamyndagerð. Hún býður krökkum að horfa í kring um sig
og skoða sitt nærumhverfi og sinn hversdagsleika í gegnum nýja linsu. Verkefnið gefur þeim tækifæri
til þess að varpa sínum hugarheim á hvíta tjaldið og upplifa sig sem höfund verks í sal fullum af
áhorfendum. Skjaldbakan vinnur með skólum á Patreksfirði, Seyðisfirði og í Reykjavík og býr þannig til
tengingar þvert yfir landið.

Steingrímur – Listfélag Steingrímsfjarðar – kr. 1.000.000 – Ísleifur á heimaslóðum
Listfélagið Steingrímur sýnir valin verk Ísleifs Konráðssonar í gamla bókasafninu á Drangsnesi haustið 2023. Málverk eftir listamanninn sem hann málaði af heimahögunum verða til sýnis. Haldið verður verkstæði í tengslum við sýninguna og börnum í Steingrímsfirði gefið tækifæri til að kynnast verkum Ísleifs og skapa sjálf þematengd listaverk í mismunandi miðla. Nemendur á Drangsnesi og Hólmavík njóta góðs af verkefninu í formi fræðslu og skapandi verkstæðavinnu. Sýning á verkum barna haldin í lokin.

Listasafn Ísafjarðar – kr. 970.000 – Einn, tveir og skapa! Listasmiðjur og námskeið
Í samstarfi við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, Safnahúsið á Ísafirði o.fl. heldur Listasafn Ísafjarðar
utan um listasmiðjur fyrir börn samhliða haustsýningu safnsins. Börnin fá tækifæri til að vinna á
skapandi og sjálfbæran hátt undir leiðsögn listamanna sýningarinnar auk annarra menntaðra
listamanna. Áhersla er lögð á að þau sæki innblástur í sýninguna, umhverfi og safneign safnsins sem
þau túlka á sinn hátt. Að lokum setja þau saman eigin sýningu á gangi Safnahússins.

DEILA