Áhættumat siglinga: tilbúið fyrir svæði Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi

Fyrirhuguð eldissvæði Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi.

Áhættumat siglinga hefur verið unnið fyrir þau þrjú svæði í Ísafjarðardjúpi sem Arctic Fish hefur sótt um til fiskeldis. Það eru Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes. Þetta kemur fram í svörum frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta. Matvælastofnun staðfestir að áhættumat um siglingaöryggi vegna eldissvæða ASF sé nýkomið í hús og er verið að leggja mat á það. Ekki voru lagðar til mótvægisaðgerðir í áhættumatinu segir í svari stofnunarinnar. Verið er að leggja mat á næstu skref.

Miðað við þessi svör virðist vera stutt í útgáfu leyfa fyrir eldi Arctic Fish í Djúpinu. Þau voru tilbúin skömmu fyrir jól en þá komu fram síðbúnar athugasemdir um staðsetningu eldissvæða gagnart siglingaleiðum og var ákveðið að láta vinna svonefnt áhættumat siglinga.

Varðandi eldissvæði Arnarlax í Ísafjarðardjúpi segir í svörum Vegagerðarinnar að búið sé að skila inn áhættumati fyrir Sandeyri (Drangsvík). „Eyjahlíð og Óshlíð eru hins vegar enn í vinnslu, en styttist í að það klárist, það er þó alveg ljóst að þau eru bæði innan hvítra ljósgeira.“

Vonast er til að lokið verði við að skoða öll svæði í Ísafjarðadjúpi í sumar lok eða upphafi hausts.  Þá verður eftir að afgreiða og fjalla um það sem þar mun koma fram hjá öðrum aðilum en þeim sem gera áhættumat siglinga, segir í svari Vegagerðarinnar.

Miðað við þessi svör verður áhættumat siglinga fyrir svæði Arnarlax við Eyjahlíð og Óshlíð ekki tilbúið fyrr en í lok sumars eða í haust.

DEILA