36% hækkun á verði sjávarafurða á 2 árum

Fram kemur í nýútkomnu riti Seðlabanka Íslands, Peningamálum, að útflutningsverð á íslenskum sjávarafurðum hefur hækkað um 36% í erlendum gjaldmiðlum talið frá fyrsta ársfjórðungi 2021 þegar það var lægst í kjölfar heimsfaraldursins. Í fyrra hækkaði það um 21% milli ára og skýrist það að hluta til af aukinni óvissu um framboð sjávarafurða í kjölfar viðskiptaþvingana Vesturlanda gegn Rússlandi sem er mikilvægur útflytjandi sjávarafurða.

Seðlabankinn segir að vísbendingar séu um að sjávarafurðaverð á erlendum mörkuðum hafi almennt gefið eftir á ný á seinni helmingi síðasta árs en þrátt fyrir það hélt útflutningsverð íslenskra sjávarafurða áfram að hækka. Verðið tók hins vegar að lækka lítillega í byrjun þessa árs en það var þó áfram hærra en spáð var í febrúar.

Athygli vekur að í glæru Seðlabankans um útflutningsverð sjávarafurða er sýnt til samanburðar þróunin í Noregi. þar sést að útflutningsverð norskra sjávarafurða hefur hækkað mun meira eða um nærri 80% á sama tíma. Á árunum frá 2015 og fram til covid19 virðist verð norsku afurðanna hafa verið um 30% hærra en á Íslandi. eftir dýfu í verðinu frá báðum löndum á árinu 2020 og svo uppsveiflu er nú svipaður verðmunur milli landanna á 1. ársfjórðungi 2023 eða um 30%.

Stór hluti afurðanna í Noregi er eldislax eða um 1,5 milljón tonna sem selst á mun hærra verði en þorskur, sem er hins vegar verðmesta fisktegundin á Íslandi.

Á glæru Seðlabankans er einnig sýnt þróun útflutningsverða á áli frá Íslandi. Þar kemur fram að verðið hefur á síðustu 2 árum hækkað um 40%, í takt við þróun heimsmarkaðsverðs á áli. Hagnaður Landsvirkjunar hefur aukist stórfellt á þessum tíma og mun fyrirtækið greiða 20 milljarða króna í arð til ríkissjóðs á þessu ári.

DEILA